Segir framboð Sigmundar hafa „gríðarlegt erindi“

Björn Ingi Hrafnsson segir það hafa verið einfalda ákvörðun að …
Björn Ingi Hrafnsson segir það hafa verið einfalda ákvörðun að ganga til liðs við Sigmund. mbl.is/Árni Sæberg

Björn Ingi Hrafnsson tilkynnti fyrr í dag að ekki yrði af stofnun og framboði svokallaðs Samvinnuflokks, heldur hefðu „Samvinnumenn“ ákveðið að ganga til liðs við nýja hreyfingu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem ekki hefur enn fengið formlegt nafn.

„Þeir sem hugðust stofna þennan Samvinnuflokk hafa gengið til liðs við hreyfingu Sigmundar,“ segir Björn Ingi í samtali við mbl.is. „Það var ekki búið að stofna Samvinnuflokkinn þannig að það er enginn flokkur að sameinast öðrum eða slíkt. Það breyttust bara forsendurnar þegar hann ákvað að segja sig úr Framsóknarflokknum og stofna nýtt stjórnmálaafl.“

Einhugur um að fylgja Sigmundi Davíð

Hann segir einhug hafa verið meðal þeirra sem unnu að stofnun Samvinnuflokksins um að ganga til liðs við hreyfingu Sigmundar Davíðs. „Þessi hópur sem var búinn að tala saman um þessi mál var sammála um að við vildum bara ganga til liðs við það og hjálpa til í þeim efnum. Það var nú ósköp einföld ákvörðun.“

Björn Ingi vildi ekki tjá sig um hvort búið væri að finna nafn á framboðið eða ákveða hvaða málefni það muni setja á oddinn, nú þegar sléttur mánuður er í að Íslendingar gangi að kjörkössunum.

„Nú er það bara Sigmundur sem hefur forystu um framhaldið þannig að hann svarar fyrir það. Ég held að þetta nýja framboð hafi gríðarlegt erindi og geti fengið mikið fylgi. Ég heyri það bara úti um allt,“ segir Björn Ingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert