Gefur minnihlutastjórn undir fótinn

Leiðtogar þeirra flokka sem eiga menn á Alþingi eftir kosningar …
Leiðtogar þeirra flokka sem eiga menn á Alþingi eftir kosningar mættu í Silfrið á RÚV í hádeginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held það skipti máli að nálgast stjórnarmyndun með dállítið breiðari hætti en áður,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, innt eftir því hvort stjórnarandstaðan fráfarandi geti myndað ríkisstjórn. Flokkarnir fjórir, Vinstri græn, Samfylking, Píratar og Framsókn hafa saman 32 þingmenn, tæpasta mögulega meirihluta. Katrín var gestur Silfursins á RÚV, ásamt formönnum annarra flokka sem náðu manni á þing.

Aðspurð hvort Katrín ætti þá við breiða stjórn yfir miðjuna sem innihéldi Sjálfstæðisflokk sagði Katrín stjórnmál ekki bara snúast um meirihluta og minnihluta í þinginu. „Þau snúast um það hvernig við nálgumst það verkefni að starfa saman á Alþingi Íslendinga.“

Egill Helgason þáttastjórnandi lýsti efasemdum um minnihlutastjórnir, og sagðist varla telja að þær væru í „genamengi“ Íslendinga. Sagði hann þær ekki hafa gefist mjög vel í Danmörku, þar sem Þjóðarflokkurinn réði því sem hann vildi ráða í skjóli þess að styðja minnihlutastjórn.

„Ég hef meiri reynslu af því að sitja í minnihlutastjórnum en þú, Egill,“ sagði Katrín og vísaði til minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, sem sat með stuðningi Framsóknarflokksins frá febrúar 2009 fram að kosningum um vorið, er hún hafði tryggt sér meirihluta á þingi.

„Það breytir því alveg hvernig við vinnum. Þó að ég haldi að ég viti allt best þá þarf ég að semja um málin með öðrum hætti en ef ég væri í meirihlutastjórn.“

Ríkisstjórnarseta ekki gefist vel

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ljóst að það hefði ekki gefist sérstaklega vel frá hruni að sitja í ríkisstjórn. Það sé eitt af því sem hræði marga. „Ég hef verið einn þeirra sem hafa sagt: Mér er sama þó að það sé erfitt, ef mér finnst það skipta máli og það leiðir til góðs fyrir land og þjóð þá ætla ég bara að gera það.“

Aðspurður segist hann telja eðlilegt að hann hljóti stjórnarmyndunarumboð fyrstur og vísar til þess að flokkurinn hafi hlotið mest fylgi í öllum kjördæmum. Hann viðurkennir að stjórnarmyndunin verði erfið. „Þetta er hrikalega flókið, og það verður að höfða til ábyrgðar allra.“

Katrín Jakobsdóttir kaus í Hagaskóla í gær.
Katrín Jakobsdóttir kaus í Hagaskóla í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert