Hvað ef landið væri eitt kjördæmi?

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefði ekki haft meirihluta þingmanna á bak …
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefði ekki haft meirihluta þingmanna á bak við sig ef atkvæðavægi hefði verið jafnt í þingkosningunum í fyrra. Eggert Jóhannesson

Samfylkingin fengi einn þingmann til viðbótar á kostnað Framsóknarflokksins, ef landið væri eitt kjördæmi. Aðrir flokkar fengju jafnmarga menn.
Væri samsetning þingsins þá eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkur: 16 þingmenn
Vinsti græn: 11 þingmenn
Samfylking: 8 þingmenn
Framsóknarflokkur: 7 þingmenn
Miðflokkurinn: 7 þingmenn
Píratar: 6 þingmenn
Flokkur fólksins: 4 þingmenn
Viðreisn: 4 þingmenn

Hér er gert ráð fyrir að 5% þröskuldurinn sem notaður er við úthlutun jöfnunarsæta yrði áfram til staðar við úthlutun þingmannanna 63. Þingsætum væri síðan deilt niður á flokka samkvæmt aðferð d'Hondts, en það er sú aðferð sem þegar er notuð til að úthluta kjördæmakjörnum þingsætum og sveitarstjórnarsætum hérlendis og víðast hvar í álfunni.

Kjördæmaskipanin kemur Sigurði Inga og félögum vel að þessu sinni.
Kjördæmaskipanin kemur Sigurði Inga og félögum vel að þessu sinni. Eggert Jóhannesson

Jöfnunarþingmenn rétta hlut hlunnfarinna

Kjördæmaskipting er mörgum hugleikin þegar gengið er til kosninga. Landinu er skipt upp í sex kjördæmi og eru þau misjöfn að stærð. Fjölmennasta kjördæmið er Suðvesturkjördæmi þar sem tæplega 70 þúsund eru á kjörskrá en hið fámennasta er Norðvesturkjördæmi með 21.500 íbúa á kosningaaldri.

Fjölmennari kjördæmin hafa á að skipa fleiri þingmönnum en þó ekki í hlutfalli við það sem íbúafjöldinn segir til um. Þannig eru rúmlega 5.300 kjósendur að baki hverjum þingmanni í Suðvesturkjördæmi en einungis 2.960 í Norðvestur og því 80% fleiri kjósendur um hvern þingmann í Suðvesturkjördæmi.

Stjórnarskráin setur hámark á atkvæðamisvægið, en aldrei mega vera meira en tvöfalt fleiri kjósendur að baki þingmanni í einu kjördæmi en öðru. Gerist það skal þingmönnum þess kjördæmis sem hallar á fjölgað á kostnað hins. Það gerðist síðast 2013 er einn þingmaður færðist frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis.

„Lýðræðið er skelfilegt stjórnarform, en þó það skásta sem við …
„Lýðræðið er skelfilegt stjórnarform, en þó það skásta sem við höfum.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldi þingmanna í kjördæmi gefur þó ekki rétta mynd af vægi atkvæðis þar. Í hverju kjördæmi eru nefnilega eitt til tvö jöfnunarþingsæti og er þeim úthlutað til flokka miðað við fylgi á landsvísu. Þeir flokkar sem hafa fengið fæsta kjördæmakjörna þingmenn miðað við atkvæðafjölda fá flesta jöfnunarþingmenn. Þannig endurspegla stærðir þingflokka betur heildarfylgi þeirra á landsvísu en ætla mætti miðað við „misvægi atkvæða“. 

Því er tæpast rétt að segja að atkvæði kjósanda í Norðvesturkjördæmi vegi 80% meira en atkvæði í Suðvestri. Fengi flokkur tíu þúsund viðbótaratkvæði í Norðausturkjördæmi skiluðu þau honum að öllum líkindum fleiri þingmönnum en tíu þúsund viðbótaratkvæði í Suðvesturkjördæmi en þó ekki 80% fleiri.

Minniháttar áhrif á stærð flokka

Kjördæmaskiptingin hefur helst áhrif á samsetningu þingflokka. Hún tryggir að hlutfall landsbyggðarfólks af þingmönnum er mun hærra en sem nemur hlutfalli þeirra af íbúafjölda landsins. Þannig eru 28 af 63 þingmönnum af landsbyggðinni, eða 44,4% þingmanna þrátt fyrir að aðeins 37% landsmanna búi þar. Áhrifin á stærð þingflokkanna eru þó, sem fyrr segir, minni vegna jöfnunarþingsætanna.

Áhugavert er að skoða hverjar niðurstöður síðustu alþingkosninga hefðu verið ef landinu væri ekki skipt í kjördæmi.

Í kosningunum í fyrra fékk Sjálfstæðisflokkurinn 21 þingmann kjörinn en Vinstri græn komu næst með 10 menn. Hefði landið verið eitt kjördæmi hefði einn maður færst frá Sjálfstæðisflokki til Vinstri grænna, en aðrir flokkar hefðu verið óbreyttir. 
Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð hefðu því fengið 31 þingmann í stað 32 og ekki getað myndað meirihlutastjórn.

Árið 2013 hefði jafnt vægi atkvæða, með einu kjördæmi, einnig aðeins skilað einni breytingu á þingmönnum. Framsóknarflokkurinn, sem fékk 19 menn kjörna, hefði þá misst einn mann yfir til Vinstri grænna sem hefðu þá skartað 8 manna þingflokki í stað 7 manna.

Í kosningunum 2009 hefði jafnt vægi atkvæða engu breytt fyrir stærðir flokkanna. Samfylkingin hefði haldið sínum 20 mönnum, Vinstri græn 14, Framsókn 9, Sjálfstæðisflokkur 16 og Borgarahreyfingin 4.

Jóhanna Sigurðardóttir og félagar hefðu haldið sínum 20 þingmönnum í …
Jóhanna Sigurðardóttir og félagar hefðu haldið sínum 20 þingmönnum í kosningunum 2009 þó vægi atkvæða væri jafnt. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert