Hættir sem stjórnarformaður Bjartrar framtíðar

Guðlaug Kristjánsdóttir.
Guðlaug Kristjánsdóttir.

Guðlaug Kristjánsdóttir hefur sagt af sér sem stjórnarformaður Bjartrar framtíðar. Þetta tilkynnir hún á Facebook-síðu sinni. Þrír dagar eru síðan Óttarr Proppé sagði af sér sem formaður flokksins og tók Guðlaug þá við sem starfandi formaður. Ekki kemur fram í yfirlýsingu Guðlaugar hvers vegna hún ákvað að segja af sér en þar segir:

„Björt framtíð hefur gert margt gott en að sama skapi mörg mistök, líkt og ég sjálf og við öll. Mistök eru til að læra af þeim, fagna þeim sem lærdómi og tækifæri til að vaxa. Að mínu mati hafa verstu mistök Bjartrar framtíðar falist í því þegar orð og gjörðir stangast á, þegar ákvarðanir eru teknar sem erfitt er að rökstyðja á grunni gilda flokksins.“

Frétt mbl.is: Óttarr hættir sem formaður

Myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í byrjun ársins voru slík mistök að mati Guðlaugar. „Slit ríkisstjórnarinnar voru að mínu viti hins vegar ákvörðun af því tagi þar sem gjörð samræmdist gildum. Ég er stolt af því að hafa á mínum stutta ferli í forystunni átt þátt í því augnabliki sannleiks og um leið hlut í því að skrifa nýjan kafla í stjórnmálum landsins. Völd eiga ekki vera tæki til að kúga fólk í veikri stöðu, stjórnmálamenn eiga að vera almannaþjónar, ekki eigin hagsmuna.“

Yfirlýsing Guðlaugar í heild:

„Í gær sagði ég af mér embætti stjórnarformanns Bjartrar framtíðar, eftir slétta tvo mánuði í því hlutverki. Það var mér heiður og ánægja að vera treyst fyrir því verkefni í upphafi september, þegar ég gaf kost á mér til að leiða uppbyggingu innra starfs og málefnavinnu flokksins. Þróun atburða frá þeim degi var hins vegar allt önnur og ófyrirséð og óvænt og krefjandi verkefni knúðu dyra.

Ég nálgast öll verkefni mín í lífinu með það fyrir augum að gera gagn, verða að liði og leggja alla mína krafta, þekkingu og reynslu í að klára þau próf sem lífið leggur fyrir mig.

Ég hef aldrei hikað við að láta mína skoðun í ljós og tel að við eigum öll að koma hreint fram, hvar sem við erum stödd í lífinu, hrósa því sem vel er gert, styðja og hvetja í bland við ábendingar um það sem betur má fara. Þannig vil ég líka að komið sé fram við mig. Vinur er sá er til vamms segir.

Björt framtíð hefur gert margt gott en að sama skapi mörg mistök, líkt og ég sjálf og við öll. Mistök eru til að læra af þeim, fagna þeim sem lærdómi og tækifæri til að vaxa.

Að mínu mati hafa verstu mistök Bjartrar framtíðar falist í því þegar orð og gjörðir stangast á, þegar ákvarðanir eru teknar sem erfitt er að rökstyðja á grunni gilda flokksins.

Myndun ríkisstjórnar fyrir ári síðan voru að mínu mati slík ákvörðun, vissulega gerð með vísan til ábyrgðar (sem hefur alltaf verið uppáhaldsgildið mitt í annars góðu safni gilda BF), en að sama skapi mörgum illskiljanleg á grunni margra annarra grundvallarþátta í stefnunni.

Slit ríkisstjórnarinnar voru að mínu viti hins vegar ákvörðun af því tagi þar sem gjörð samræmdist gildum. Ég er stolt af því að hafa á mínum stutta ferli í forystunni átt þátt í því augnabliki sannleiks og um leið hlut í því að skrifa nýjan kafla í stjórnmálum landsins. Völd eiga ekki að vera tæki til að kúga fólk í veikri stöðu, stjórnmálamenn eiga að vera almannaþjónar, ekki eigin hagsmuna.

Ég geng stolt frá borði, gengst glöð við þeim mistökum sem ég hef gert og óska fyrrum samstarfsfólki alls hins besta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert