„Þungur hugur í mörgum þingmönnum“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður VG mætir til fundar í Alþingshúsinu …
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður VG mætir til fundar í Alþingshúsinu fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það kemur Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, ekki á óvart að tugir einstaklinga hafi sagt sig úr flokknum í dag í kjölfar þess að þingflokkurinn samþykkti að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Níu af ellefu þingmönnum flokksins greiddu atkvæði með því á fundi í dag að fara í viðræður, en Rósa var önnur þingmannanna sem greiddi atkvæði á móti. 

„Ég hef fengið mjög mikið af skilaboðum, tölvupóstum og upphringingum. Ég hef talað við fullt af fólki, bæði virka félaga og kjósendur okkar sem hafa fylgt okkur lengi, og það er mikil óánægja meðal þessara stuðningsmanna okkar. Maður hefur fundið það, þannig þetta kemur mér ekki sérstaklega á óvart, en sýnir samt að það er djúpstæð óánægja meðal einhvers hluta félaga okkar,“ sagði Rósu í viðtali í þættinum Magasínið á K100 í dag. 

Íhugar ekki að segja sig úr flokknum

Aðspurð hvort hún íhugi sjálf úrsögn úr Vinstri grænum segir Rósa það ekki standa til. „Nei, ég er þingmaður Vinstri grænna og er kosin á þing fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Ég er að sjálfsögðu ekki að segja mig úr flokknum með þessari afstöðu. Það er rétt að halda því til að haga að ég ber fullt traust til okkar í Vinstri grænum og forystu okkar. Ég get bara ómögulega samþykkt þetta, sannfæringar minnar vegna. Ég er búin að fara í skoðun inn á við og horfast í augu við hver mín sannfæring er, og ég hef ekki sannfæringu fyrir þessum formlegu stjórnarmyndunarviðræðum.“

Rósa segist engu að síður virða ákvarðanir sinna félaga sinna í þingflokknum, en hún veit að ákvörðunin er mörgum þungbær. „Það er hægt að halda því til haga að það er þungur hugur í mörgum þingmönnum og í okkar fólki. Vissulega ekki öllum. Það eru þingmenn sem styðja þetta heilshugar, en það eru líka þingmenn, aðrir en ég og Andrés Ingi Jónsson, sem greiddi líka atkvæði gegn því að fara í formlegar viðræður, sem þykir þetta þungbært en vilja samt láta á þetta reyna til að sjá hvað kemur úr því.

Gríðarlega erfitt fyrir feminískan þingflokk 

Þingflokkur Vinstri grænna fundaði í um fimm klukkutíma í gær án þess að niðurstaða fengist í það hvort flokkurinn samþykkti að fara í formlegar viðræður eða ekki. Rósa segist hafa farið fram á það undir lok fundarins að farið í yrði í atkvæðagreiðslu um stuðning við viðræðurnar. Sú atkvæðagreiðsla fór svo fram í dag.

Ástæðan fyrir því að Rósa er ekki tilbúin að samþykkja formlegar viðræður er sú að hún ber ekki traust til Sjálfstæðisflokksins. „Því miður þá hef ég ekki náð að sannfæra mig um að þarna sé nægilega mikið traust til þess að ég hafi trú á því að þessar viðræður skili einhverjum árangri sem er ásættanlegur fyrir okkur í Vinstri grænum.“

Ljóst er að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, telur hins vegar að flokkurinn geti fengið út úr viðræðunum málefnasamning sem flokkurinn geti sætt sig við.

Aðspurð hvað Rósa telji að gangi ekki upp í viðræðunum bendir hún meðal annars á að margt skilji Vinstri græna og Sjálfstæðisflokkinn að málefnalega séð. Hún segist hafa bent á það í rökstuðningi sínum að kosið hafi verið vegna mála sem komið hafi upp í tengslum við uppreist æru. Það sé því gríðarlega erfitt fyrir feminískan flokk og feminíska þingmenn að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokk. Hún bendir hins vegar á að þingflokkurinn hafi aðeins verið að taka afstöðu til formlegra viðræðna. Síðan eigi eftir að taka afstöðu til þess málefnasamnings sem komi út úr viðræðunum.

„Ég er í raun og veru að neita fyrr í ferlinu heldur en vaninn er, ef fólk gerir þá athugasemdir. Ég hef tekið þetta sem dæmi fyrir minni afstöðu, að minna á af hverju við gengum til kosninga. Svo auðvitað getum við farið í að rifja upp þau spillingarmál sem hafa umlukið Sjálfstæðisflokkinn undanfarið. Því miður þá hefur mér virst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki farið í nægilega siðbót eða yfirvegaða naflaskoðun út af þeim málum.“

Óvenjulegt að þingmenn leggist gegn viðræðum

Aðspurð hvort hún hafi rætt afstöðu sína við Katrínu, formann flokksins, og hvort hún telji það trúnaðarbrest að hún og Andrés leggist gegn viðræðunum, segist Rósa ekki getað svarað fyrir Katrínu.

„En við höfum rætt þetta. Ég lét hana vita af þessari afstöðu minni og hún hefur legið fyrir ljós af minni hálfu á þessum þingflokksfundum þar sem við höfum verið á að ræða um þessar viðræður. Þetta kom fólki því kannski ekki sérstaklega á óvart, en það kannski kemur á óvart að þingmenn greiði atkvæði gegn því að fara í formlegar viðræður, það er óvenjulegt, vissulega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert