Mikilvægt að sinna viðhaldi bæjarins

Davíð Kristinsson rekur Ölduna á Seyðisfirði.
Davíð Kristinsson rekur Ölduna á Seyðisfirði. mbl.is/Eggert

„Þar sem við að stórum parti lifum af túrisma þá þurfum við að passa upp á heildarmyndina. Þetta er rosa fallegur bær en það þarf bara að halda honum við eins og öllu öðru. Við búum það vel að við erum með ofboðslega fallegt bæjarstæði, mikið af gömlum húsum miðað við aðra og það þarf bara að passa upp á það sem að við höfum, að gangstéttir séu heilar og hús heil og annað,“ segir Davíð Kristinsson veitingamaður og hótelrekandi á Seyðisfirði.

Honum finnst heildarásýnd bæjarins vera eitt mikilvægasta verkefnið sem sveitarstjórn þurfi að ráðast í á næsta kjörtímatímabili.

„Þeir sem eru við stjórnvölinn núna hafa verið gríðarlega duglegir að spara og þess þurfti, bærinn var farinn á hausinn og við vorum að missa fjárræði og annað. Við erum búin að vera átta ár núna að spara gríðarlega og það er jákvætt, en það þarf núna að gera þessa hluti, sinna bænum,“ segir Davíð og bætir því við það sé líka dýrt að geyma að gera við.

„Það er kostnaður sem kemur þá bara í bakið á þér.“

Hann segist afar sáttur með skólana á Seyðisfirði og nefnir sérstaklega að þar sé tónlistarnámið frábært. Bæjarlífið sé einnig lifandi og skemmtilegt, afar vel sé mætt á menningarviðburði þegar þeir séu haldnir og bærinn sameinist um fótboltaliðið Huginn, jafnvel þeir sem skilji ekki fótbolta, eins og Davíð sjálfur.

„Seyðfirðingar vilja lifa lífinu. Nú rekum við bistro hérna og það er opið allt árið. Það er ótrúlega mikið af fólki sem kemur út bara til að spila, eða fá sér te, eða einn bjór. Er ekki að gera neitt sérstakt, bara nennir ekki að vera heima og þykir eðlilegt að fara út að hitta fólk. Það eru rosaleg verðmæti í því. Fólk hefur oft þurft að fara í burtu héðan og koma aftur til að átta sig á því hvað þetta er verðmætt og átta sig á orkunni sem er hérna.“

Trygg tenging við Egilsstaðaflugvöll mikilvæg

Oft er ófært frá Seyðisfirði yfir vetrartímann og það segir Davíð geta skapað hættu, auk almennra óþæginda fyrir íbúa og þá sem reiða sig á komu ferðamanna. Hann er sjálfur í björgunarsveitinni og slökkviliðinu á Seyðisfirði.

„Ég hef farið í akstur yfir sem tók sex klukkutíma með mann sem við vorum ekkert vissir um að myndi hafa það yfir. Það er mjög erfitt að upplifa það og það er eitthvað sem á ekki að þurfa. Þetta er bara gríðarlegt óöryggi, að vita af því að ef það eru einhver veikindi, eða einhver lendir í hjartastoppi eða eitthvað, hvað þá?“

Davíð segir Seyðfirðinga almennt sammála um að vilja fá göng upp á Hérað, beina tengingu við flugvöllinn á Egilsstöðum, en einnig hefur verið rætt um þrenn göng á Mið-Austurlandi sem tengi Norðfjörð, Seyðisfjörð og Fljótsdalshérað með miðpunkt í Mjóafirði.

„Allir Seyðfirðingar vilja fá bæði, en ég held að okkar hagur sé að fara upp á Hérað til að byrja með. Ég held að það séu aðallega þau hinu megin sem vilji fá okkur tengd þar við, það myndi þjóna þeirra hag gríðarlega vel. Þetta væri allt í lagi ef að sjúkrahúsið í Neskaupstað gæti tekið við öllu því sem þarf að taka við, en þau geta það ekki. Þetta endar eiginlega alltaf í sjúkraflugi suður hvort sem er og það er þess vegna sem margir hugsa tenginguna upp á Hérað,“ segir Davíð.

Rætt er við fleiri íbúa á Austurlandi um helstu málin fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor í Morgunblaðinu og hér á mbl.is í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert