Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur mbl.is fengið til liðs við sig 100 konur til að skrifa 100 pistla um upplifun sína af kosningaréttinum og hugleiðingar á þessum tímamótum. Umsjón: Hólmfríður Gísladóttir.
Fida Abu Libdeh
Fida Abu Libdeh
orku- og umhverfistæknifræðingur

Jafnrétti óháð uppruna

Síðan ég fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2002 hef ég alltaf nýtt mér kosningaréttinn, mér dettur ekki annað í hug. Ég el börnin mín upp við það hversu mikilvægt það er að kjósa og að hafa réttinn til þess, ég tek þau með mér á kosningaskrifstofur og útskýri fyrir þeim hvernig maður þarf að velja og af hverju það skiptir máli. Fyrir utan að mín skoðun skiptir máli í samfélaginu sem ég bý í ber ég mikla virðingu fyrir konum sem hafa barist fyrir því að við höfum þennan rétt, og ég mun aldrei gera lítið úr þeirra baráttu með því að sitja heima og sleppa að kjósa og segja mína skoðun.

Konur eru helmingur samfélagsins og þær eiga að hafa skoðanir og þar með áhrif á allar ákvarðanir sem teknar eru í samfélaginu.

Ég horfi á kosningaréttinn sem forréttindi en ekki sjálfsagðan hlut. Ég tel það mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að það eru ekki allir í heiminum sem hafa þann rétt að kjósa og að margir hafa fórnað sér til þess að berjast fyrir þeim rétti.

Við erum samt ekki komin lengra en það að þótt kosningaréttur sé jafn á milli kynja erum við ennþá að mismuna fólki. Með því á ég við að við Íslendingar teljum að atkvæði innfluttra skipti mismiklu máli eftir því hvaðan þeir koma. Auðvitað á fólk sem ekki býr á Íslandi ekki að hafa kosningarétt, t.d. í sveitarfélagskosningum, en misréttið felst í því að ef þú ert frá Norðurlöndunum þá er nóg að vera með lögheimili á Íslandi í þrjú ár, annars þarftu að bíða í fimm ár til að geta tekið þátt í sveitarfélagskosningum. Mér persónulega finnst það allt of langur tími þessi fimm ár.

Útlendingar búsettir hér á landi hafa sömu skyldur og Íslendingar en því miður ekki sömu réttindi fyrr en þeir hafa búið hér í að minnsta kosti fimm ár eða fengið ríkisborgararétt. Jafnréttisbarátta hvað kosningar varðar endaði ekki þegar konur fengu kosningarétt fyrir 100 árum, þó svo að mikið hafi verið unnið með því. Baráttan heldur áfram þar til allir í samfélaginu eru jafnir þegar að kosningum kemur, líka þeir sem hafa flust hingað búferlum. Jafnréttisbaráttan er ekki unnin fyrr en jafnt hlutfall er af konum og körlum í öllum stigum þjóðfélagsins, sama hver uppruni þeirra er.“