Veruleg tækifæri næstu 80 árin

Málmsteypa Þorgríms Jónssonar Merking: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Málmsteypa Þorgríms Jónssonar Merking: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

„Ísland flytur út 50 til 80 þúsund tonn af brotajárni á ári og það fer yfirleitt til Asíu þar sem það er brætt með olíu- eða kolakyntum ofnum. Ef við hjá Málmsteypunni getum lagt eitthvað af mörkum til þess að bræða þetta járn og gera úr því nothæfa vöru þá leggjum við okkar lóð á vogarskálarnar,“ segir Einar Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri Málmsteypu Þorgríms Jónssonar, sem á 80 ára afmæli á þessu ári.

„Málmsteypa Þorgríms Jónssonar er elsta endurvinnslufyrirtæki landsins og jafnframt eina fyrirtækið sem býr til vörur úr steyptu járni. Við höfum brætt brotajárn og steypt úr því síðan árið 1944 þegar Jón Jónsson silfursmiður og Þorgrímur Jónsson, sonur hans og þá nemi í málmsteypu, stofnuðu fyrirtækið. Við steypum aðallega vörur til gatnagerðar, eins og brunnlok, ristar, hellur, niðurföll og annað. Þar að auki framleiðum við ýmislegt fyrir stóriðjuna, rekstrarvörur eins og hjól, rör og þess háttar. Það sem fólk sér helst af vörum okkar eru brunnlok og ristar úr járni, í götum og gangstéttum. Nýleg vara hjá okkur eru hellur fyrir gangbrautir, með doppum og línum þannig að blindir og sjónskertir finni fyrir því að þeir nálgist gangbraut.

Í um 20 ár höfum við líka flutt inn plaströr sem eru lögð undir götur og frá húsum. Við leggjum okkur fram um að selja vandaða vöru úr endurvinnanlegu plasti og forðast efni sem menga jarðveginn. Við sjáum mikil tækifæri í því að stækka vöruframboðið okkar enn frekar á næstu árum.“

Málmsteypa Þorgríms Jónssonar
Málmsteypa Þorgríms Jónssonar Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Gamla góða pönnukökupannan

Við stofnun Málmsteypunnar voru búsáhöld aðalframleiðsluvaran og ein af vinsælustu vörunum var pönnukökupannan sem var til á flestum íslenskum heimilum. Þorgrímur endurhannaði pönnuna árið 1953, breytti lögun hennar og setti á hana rennt beykiskaft sem varð til þess að pannan varð mjög vinsæl og framleidd í þúsundavís. Með tímanum fer svo fyrirtækið að einbeita sér meira að iðnaðarframleiðslu. Málmsteypan var þá og hefur verið fjölskyldufyrirtæki megnið af sínum 80 árum en árið 2019 ákveður fjölskyldan að selja og sjóður í rekstri Alfa Framtaks kaupir fyrirtækið.

Einar talar um að ástríðan sem einkenndi fjölskyldufyrirtækið hafi þó fylgt með í kaupunum. „Vinnumenningin sem verður til í fjölskyldufyrirtækjum er oft svolítið öðruvísi en í öðrum fyrirtækjum og það virðist oft haldast, þó svo að fjölskyldan sé farin úr fyrirtækinu. Það er mikil ástríða, meiri samkennd með fyrirtækinu og starfsfólkinu líður sem það eigi hlut í fyrirtækinu. Ástríðan smitast svo til viðskiptavinarins og fólk samsamar sig fyrirtækinu,“ segir Einar einlægur og bætir við að sjálfur hafi hann byrjað hjá Málmsteypunni fyrir einu og hálfu ári.

„Ég hef verið í kringum stóriðjuna í 20 ár og hef líka brennandi áhuga á þessum iðnaði. Mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt og einmitt gaman að koma inn í svona gott og gamalt fyrirtæki og reyna að gera fyrirtækið þannig að það geti haldið upp á 160 ára afmælið á einhverjum tímapunkti þó að ég taki kannski ekki þátt í því,“ segir Einar og hlær. „Það er gaman að taka þátt í að leggja leiðina.“

Innlend framleiðsla sjálfbær kostur

VSÓ Ráðgjöf gerði skýrslu um kolefnisfótspor fyrir Málmsteypuna nýverið og Einar segir að skýrslan hafi komið þægilega á óvart. „Það kom í ljós að við erum 11-13 sinnum lægri í kolefnisfótspori heldur en löndin sem við keppum við. Þetta var ánægjulegt því við viljum gera þetta vel og svo kemur flutningurinn ofan á þannig að þegar allt er talið saman erum við sennilega með um 17 sinnum minni kolefnisfótspor. Það er fyrir utan járnið sem er flutt úr landi til endurbræðslu.

Það er þó ekkert launungarmál að járnbræðsla er orkufrek og fellur undir mengandi iðnað. Það er því oft erfitt að fá fólk með umhverfisvitund til að átta sig á að við erum að minnka þátt Íslendinga í mengun í heiminum, þó litlir séum. Hins vegar starfar Málmsteypan vitanlega samkvæmt íslenskum lögum og reglugerðum sem hamla samkeppnisstöðu okkar verulega þegar kemur að því að keppa í verði við innfluttar vörur frá Asíu.“

Í tilefni af afmæli Málmsteypunnar verður nýtt myndmerki fyrirtækisins kynnt …
Í tilefni af afmæli Málmsteypunnar verður nýtt myndmerki fyrirtækisins kynnt í dag. Ljósmynd/Aðsend

Fjárfest til framtíðar

Síðustu sjö ár hefur Málmsteypan verið í flokki Framúrskarandi fyrirtækja og Einar viðurkennir að það sé mikill heiður. „Það er gaman að vera í topp 2% fyrirtækja á Íslandi. Áður en Alfa Framtak keypti fyrirtækið hafði það verið rekið farsællega í 76 ár og eigendurnir voru því komnir með tilfinningu fyrir því hvernig ætti að reka fyrirtæki, jafnvel við erfiðar aðstæður, og þau gerðu það mjög vel. Í þá daga var ekkert keypt nema það væri til fyrir því og eigendur unnu sjálfir í fyrirtækinu.

Alfa Framtak hefur byggt á þessum grunni, stutt við vöxt og komið félaginu inn í nútímann. Í fyrra var svo ráðist í stórar fjárfestingar sem hafa gjörbreytt framleiðslunni. Við ætlum okkur áfram að vera framúrskarandi um ókomna tíð,“ segir Einar stoltur.

Málmsteypa Þorgríms Jónssonar er með 11-13 sinnum lægra kolefnisfótspor heldur …
Málmsteypa Þorgríms Jónssonar er með 11-13 sinnum lægra kolefnisfótspor heldur en löndin sem fyrirtækið keppir við, samkvæmt skýrslu VSÓ Ráðgöf. Ljósmynd/Aðsend

Einstakur mannauður

Málmsteypan leggur mikið upp úr gæðaeftirliti en í fyrirtækinu er fullkomið efnagreiningartæki sem er kvarðað einu sinni á ári. Þá kemur eftirlitsaðili erlendis frá til að stilla tækið svo það sýni rétt gildi. Einar talar um að þegar málmbráðin sé búin til þá sé hún mæld með þessu tæki og þá sé hægt að stilla málmbráðina með íblöndunarefnum til að fá út staðlaða framleiðslu. „Síðan erum við með sjónrænt gæðaeftirlit á vörum til að fyrirbyggja að útlitsgallaðar eða skemmdar vörur fari út úr húsi,“ segir Einar og bætir við að mannauður fyrirtækisins sé sannarlega einstakur.

„Það eru 15 starfsmenn hér og þar af eru níu sem starfa við framleiðsluna. Þeir sem hafa unnið lengst í framleiðslunni hafa verið hér í 22 ár enda gott að vera hér. Við erum með fólk frá ansi mörgum þjóðum enda erum við fjölþjóðlegur vinnustaður þar sem engin mismunun er liðin.“

Stefnt að því að auka umsvif

Í tilefni af afmælinu segir Einar að vegleg afmælisveisla verði haldin með haustinu en á árinu er stefnt að því að kynna félagið betur. Á svona tímamótum sé líka mikilvægt að líta til fortíðar en ekki síður til framtíðar. „Ég sé fyrir mér að næstu 80 ár muni Málmsteypan stækka frekar, auka framleiðslugetuna og reyna að nýta allt mögulegt járn sem til fellur á landinu.

Við endurnýjuðum búnaðinn okkar nýverið sem stórbætti framleiðsluna sem og minnkaði umhverfisáhrif þannig að okkur eru allir vegir færir. Tækifærin felast svo í því að auka umsvif félagsins á öðrum sviðum og þjónusta viðskiptavini enn betur með fjölbreyttum vöruflokkum sem nýtast byggingaraðilum, sveitarfélögum og stóriðju. Málmsteypan er í grunninn innviðafyrirtæki og verður það áfram næstu 80 árin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert