Ný og glæsileg þjónustumiðstöð Kletts að Einhellu í Hafnarfirði

Pétur Viðar Elínarson rekstrarstjóri og Daníel Terrazas stöðvarstjóri starfa báðir …
Pétur Viðar Elínarson rekstrarstjóri og Daníel Terrazas stöðvarstjóri starfa báðir á glæsilegri þjónustumiðstöð sem Klettur hefur nýverið opnað. mbl.is/Arnþór

Þessa dagana er Klettur að opna nýja þjónustumiðstöð að Einhellu 1a í Hafnarfirði. Þar er að finna alhliða þjónustu við Scania og CAT ásamt varahlutaverslun og ökuritaþjónustu. Jafnframt er dekkjaverkstæði og smurþjónusta fyrir fólksbíla og vörubíla.

„Það er glæsileg aðstaða hér og allt splunkunýtt enda erum við í húsi sem var sérstaklega byggt fyrir okkur,“ segir Pétur Elínarson, rekstrarstjóri hjá Kletti í Hafnarfirði.   

Jafnvægi milli seldra tækja og þjónustustigs 

„Þessi nýja aðstaða mun bæta þjónustu okkar við viðskiptavini á höfuðborgarsvæðinu og opna fyrir ný viðskipti í ört vaxandi iðnaðarhverfi í Hafnarfirði. Við höfum fundið fyrir miklum spenningi meðal viðskiptavina okkar þar sem við getum meðal annars sinnt kúnnahóp okkar á Suðurnesjunum og á Suðurlandi mun betur.

Þessi þjónustumiðstöð er hrein viðbót við Klettagarðana þannig að við aukum þjónustustigið hjá okkur við CAT og Scania-eigendur ásamt því að vera með flott dekkjaverkstæði og smurþjónustu fyrir fólks- og vörubíla hér,“ segir Pétur.

Á nýrri þjónustumiðstöð Kletts að Einhellu má finna alhliða þjónustu …
Á nýrri þjónustumiðstöð Kletts að Einhellu má finna alhliða þjónustu við Scania og CAT ásamt varahlutaverslun, dekkjaverkstæði og smurþjónustu fyrir fólksbíla og vörubíla. mbl.is/Arnþór

Sex stjörnu hótel og tímabókanir í dekkjaskipti 

„Svo erum við með eina sex stjörnu hótelið á landinu,“ segir Daníel Terrazas, stöðvarstjóri hjá Kletti Einhellu, og hlær. „Við bjóðum upp á dekkjahótel fyrir allar gerðir dekkja, alveg frá minnstu dekkjunum og upp í vörubíladekkin. Það er mjög þægilegt að þurfa ekki að burðast með dekkin fram og til baka, sérstaklega á veturna þegar allt er blautt. Við köllum þetta sex stjörnu hótel því þú bókar bara tíma, mætir með bílinn, dekkjunum er skellt undir og svo keyrir þú í burtu. Þú þarft ekki að hugsa neitt meira um dekkin, þetta er algjör lúxus.

Við viljum einfalda líf fólks og bjóðum upp á tímabókanir í dekkjaskipti en það er einnig hægt að skilja bílinn eftir en þá grípum við í hann þegar tími gefst,“ segir Daníel og bætir við að það virðist almennt vera að færast í aukana að fólk vilji panta tíma í stað þess að vera í röð í einhverja klukkutíma. „Þetta hefur vitanlega sína kosti og galla og það eru alltaf einhverjir sem vilja frekar bíða en meirihlutinn vill orðið panta tíma.“ 

Klettur opnaði nýverið glæsilega þjónustumiðstöð að Einhellu í Hafnarfirði en …
Klettur opnaði nýverið glæsilega þjónustumiðstöð að Einhellu í Hafnarfirði en búast má við að sú staðsetning verði mjög vinsæl. mbl.is/Arnþór

 

Heilsársdekk eða sumardekk? 

Aðspurður hvort bílum á heilsársdekkjum sé að fjölga segir Daníel að allur gangur sé á því. „Ég mæli alltaf með að vera með sumardekk yfir sumarmánuðina og góð vetrardekk yfir veturinn til að halda í bestu aksturseiginleika bílsins og auka öryggi umtalsvert með meðal annars styttri hemlunarvegalengd.

Að auki eru vönduð dekk yfirleitt hljóðlátari og ending betri. Heilsársdekk hafa þann galla að þau slitna hraðar yfir sumarmánuðina og hafa lakari hemlunareiginleika. Hvað snertir rafmagnsbíla þá er enn mikilvægara fyrir þá að vera á réttum dekkjum til að auka drægni og hljóðvist.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert