Formóðir fornra Rómverja fannst í Forum Romanum

Fornleifafræðingur rannsakar beinagrindina, sem fannst í Róm.
Fornleifafræðingur rannsakar beinagrindina, sem fannst í Róm. AP

Ítalskir fornleifafræðingar, sem eru að grafa í Forum Romanum í miðborg Rómar, fundu á mánudag vel varðveitta beinagrind af konu, sem var uppi fyrir 3000 árum. Þetta kom fornleifafræðingunum á óvart, því samkvæmt hefðbundnum kenningum hófst byggð í Rómaborg ekki fyrr en um 300 árum síðar eða 753 fyrir Krist.

Vitað hefur verið lengi, að bronsaldarfólk hafðist við á svæðinu þar sem Rómverjar reistu borg sína síðar, en litlar minjar hafa fundist um það.

Fornleifafræðingurinn Anna De Santis, sem tók þátt í uppgreftrinum, sagði að beinagrindin, sem fannst á mánudag, sé af konu sem var um það bil þrítug þegar hún dó. Hún hafi greinilega verið af yfirstétt, því hún var með hálsfesti með gullmeni, hárkamba úr bronsi og bronshring á fingri.

Flestir forfeður hinna fornu Rómverja brenndu hina látnu og létu öskuna í grafker. Sérfræðingar í sögu svæðisins hafa mikinn áhuga á þessum grafreit, sem er ekki langt frá grafreitnum þar sem lík Sesars var grafið eftir að hann var myrtur þúsund árum síðar. Segja þeir að fundur beinagrindarinnar kunni að varpa ljósi á breytingar á útfararsiðum, þegar fólk fór að greftra hina látnu í stað þess að brenna þá.

Fornleifafræðingar að störfum í Forum Romanum.
Fornleifafræðingar að störfum í Forum Romanum. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert