"Þetta verður mikil vinna"

Fyrir þremur árum ól Angela Magdaleno þríbura með aðstoð frjósemislyfja. Í síðustu viku eignaðist hún síðan fjórbura - en að þessu sinni án þess að frjósemislyf hefðu nokkuð með það að gera!

Magdaleno er fertug og býr í Los Angeles. Hún segist hafa orðið alveg dolfallin þegar læknirinn hennar sagði henni að hún væri ófrísk og að hún bæri fjögur börn undir belti. "Ég vissi ekki hvað ég átti til bragðs að taka," segir hún. "En núna er ég hamingjusöm því að þau eru öll heilbrigð og ég líka."

Magdaleno eignaðist tvo drengi og tvær stúlkur að þessu sinni og átti fæðingin, eða fæðingarnar, sér stað 6. júlí sl. Hafði hún þá gengið með í 32 vikur sem þykir gott, en að meðaltali ganga konur aðeins með fjórbura í 29 vikur.

Kathryn Shaw læknir, sem tók á móti börnunum, sagði að líkurnar á því að eignast fjórbura án þess að frjósemislyf kæmu til sögunnar væru 1 á móti 800.000. Kvaðst hún aðeins einu sinni hafa lent í slíku tilfelli sjálf, og það hefði verið fyrir átján árum síðan.

Fyrir þremur árum var Magdaleno tveggja barna móðir, hún átti dæturnar Kelly Moreno og Stephanie Anzaldo, sem eru nú 17 og 15 ára. En maður hennar, Alfredo Anzaldo, sem starfar sem teppalagningamaður, vildi fleiri börn. Magdaleno undirgekkst því frjósemislyfjameðferð, eignaðist þríbura og hélt í kjölfarið að öllum barneignum væri lokið. En svo varð hún skyndilega ófrísk á ný; af fjórburunum.

Þessi ellefu manna fjölskylda mun búa í tveggja herbergja íbúð í austurhluta Los Angeles. Magdaleno segir stofuna vera stóra og börnin smá; hvað þau munu taka til bragðs þegar börnin verða stærri veit hún ekki. "Þetta verður mikil vinna," segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert