NASA rannsakar norðurljósin

mbl.is/Jónas Erlendsson

Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, hyggst skjóta á loft burðarflaug af gerðinni Delta II á morgun, föstudag, og í flauginni verða fimm litlir gervihnettir sem eiga að fara á braut um jörðina til að rannsaka norðurljósin næstu tvö árin.

Markmiðið er að rannsaka hvernig og hvar segulhvolfshviður myndast nákvæmlega í háloftunum en þær valda segulljósunum sem við köllum norðurljós eða suðurljós eftir því við hvort heimsskautið þau sjást. Með því að rannsaka orsakir hviðanna geta vísindamenn fengið mikilvægar upplýsingar um tengsl jarðarinnar og sólarinnar og hvernig segulhvolfið starfar, að sögn bandarísku geimferðastofnunarinnar.

Segulhvolfshviðurnar tengjast sólvindum, straumi hlaðinna agna, einkum róteinda og rafeinda.

Hluti þessara agna kemst inn í segulsvið jarðar, streymir í átt að segulskautunum og rekst á lofthjúpinn. Orkan í þessum ögnum örvar frumeindir og sameindir sem senda síðan orkuna frá sér sem sýnilegt ljós í háloftunum, það er að segja norðurljósin eða suðurljósin.

Gervihnettirnir fimm sem eiga að rannsaka þetta fyrirbæri eru nefndir THEMIS, sem er skammstöfun á ensku og jafnframt skírskotun til Þemisar, gyðju laga, réttlætis, visku og ráðsnilldar í grískri goðafræði, dóttur Úranusar og Gaiu.

Meira á mbl.is | ítarefni

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert