Fundu vísbendingar um stórt haf undir Austur-Asíu

Bandarískir jarðskjálftafræðingar hafa fundið vísbendingar um stórt haf undir Austur-Asíu, og telja þeir það vera að minnsta kosti jafn stórt og Norðuríshafið. Þetta er í fyrsta sinn sem vísbendingar finnast um svo stórt vatn undir jarðskorpunni, að því er vefurinn LiveScience greinir frá.

Það voru skjálftafræðingar við Washington State-háskóla og Háskólann í Kaliforníu sem gerðu þessa uppgötvun, en frá henni verður greint nánar í væntanlegu sérriti frá Bandaríska jarðeðlisfræðisambandinu.

Skjálftafræðingarnir rannsökuðu rúmlega 600.000 skjálftarit hvaðanæva úr heiminum og tóku eftir því að undir tilteknu svæði í Asíu virtust skjálftabylgjur dofna og hægja lítillega á sér.

Hvort tveggja samræmist því að vatn sé þarna að finna, sagði annar skjálftafræðingurinn, Michael Wysession. Hann hefur kallað þetta fyrirbæri „Pekingfrávikið“, því að bylgjurnar virtust dofna mest undir Pekingborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert