Týndu tímaritinu við hrun tölvukerfis

Mikilvægi þess að taka öryggisafrit verður seint ofmetið
Mikilvægi þess að taka öryggisafrit verður seint ofmetið Reuters

Viðskiptablaðið Business 2.0, sem bandaríski útgefandinn Time gefur út, hefur birt ófáar greinar þar sem lesendur eru hvattir til að gera öryggisafrit af allri sinni vinnu. Í grein sem blaðið birti árið 2003 var öryggisafritun líkt við notkun tannþráðar, nokkuð sem er afar mikilvægt, en allt of fáir muna eftir. Skilaboðin virðast þó ekki hafa átt við um blaðið sjálft líkt og kom í ljós þegar ritstjórnarkerfið hrundi.

Þetta kemur fram á fréttavefnum Newlaunches.com. Þegar ritstjórnarkerfi blaðsins hrundi þann 23. apríl sl. hvarf allt eintak næsta mánaðar og í ljós kom að öryggisafrit hafði ekki verið gert, þrátt fyrir að sérstakur þjónn hefði það hlutverk að afrita öll gögn af kerfinu reglulega.

Blaðið hafði aldrei áður þurft að nota öryggisafrit, sem gæti skýrt það hvers vegna enginn virtist vita af því að þjónninn sem taka átti afritin starfaði ekki sem skyldi.

Það var lán í óláni fyrir útgefendur að allur texti blaðsins hafði verið sendur til lögfræðinga til yfirferðar, en setja þurfti allt blaðið upp að nýju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert