Indverskum tígrisdýrum fækkar ört

Reuters

Mun færri villt indversk tígrisdýr eru á Indlandi en áður var talið og sýnir talning að tígrunum hefur fækkað um tvo þriðju í sumum héruðum landsins á fimm árum. Veiðiþjófnaður og eyðilegging heimkynna tígursins eru helstu ástæðurnar fyrir ástandinu og er sögð hætta á að dýrin deyi út ef ekkert verður að gert.

Síðasta skýrsla sem gerð var um fjölda indverskra tígra var gerð árið 2002, þá voru dýrin sögð vera um 3.500, en vísindamenn telja nú að sú tala hafi verið mjög ýkt.

Tígrisfeldir eru mjög eftirsóttir og eru bein dýranna notið við austurlenskar lækningar. Indversk stjórnvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að vinna ekki að verndun tígrisdýranna, en skógarverðir eru einnig sakaðir um að ýkja tölur um þau dýr sem sést hafi til.

Unnið hefur verið að nýrri skýrslu um ástand stofnsins undanfarin tvö ár og kemur skýrslan út í desember. Bráðabirgðaniðurstöður benda þó til þess að ástand stofnsins sé mun verra en áður var talið, í héraðinu Madhya Pradesh í miðhluta Indlands hefur til að mynda tígrisdýrunum fækkað úr 710 í 255 síðan síðast var talið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert