Könnunarfar lagt af stað til Mars

Teikning af Fönix á Mars.
Teikning af Fönix á Mars. AP

Könnunarfarinu Fönix var skotið í dag á loft á Canaveralhöfða á Flórída áleiðis til Mars. Þar á Fönix að leita að vísbendingum um hvort örverur séu eða hafi verið á reikistjörnunni. Gert er ráð fyrir að ferð Fönix til Mars taki níu mánuði og farið lendi þar í maí á næsta ári.

NASA vonar að geimfarið lendi á sléttlendi með fáum eða engum klettum á breiddargráðu sem samsvarar nyrsta hluta Alaska hér á jörðinni. Líklegt er að brunafrost verði á lendingarstaðnum, allt að -87° á Celsius.

Fari allt að óskum er markmiðið að nota rannsóknartæki sem aldrei hafa verið notuð á Mars áður.

Margir vísindamenn telja að fundist hafi merki um forn fljót og höf á yfirborði Mars og að einhvers konar lífverur hafi einhvern tíma þrifist þar. Geimfarið Odyssey fann árið 2002 firnamikið magn af vetni á yfirborðinu og er það talið merki um að ís sé að finna í hálfs metra þykku lagi á stórum svæðum norðarlega á Mars.

Ólíkt Marsförunum Spirit og Opportunity, sem hafa ferðast um yfirborð Mars í nær þrjú ár, knúin með sólarorku, á Fönix að vera kyrr á lendingarstaðnum.

Og ólíkt geimvögnum NASA, sem skoppuðu við lendingu innan í stórum loftpokum, á lending Fönix að vera mjúk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert