Þunglyndi veldur meiri vanlíðan en margir þrálátir sjúkdómar

Samanburður á þunglyndi og fjórum öðrum þrálátum sjúkdómum, sem ekki eru banvænir, hefur leitt í ljós að þunglyndið dregur mest úr starfsorku, að því er fram kemur í rannsóknarniðurstöðum sem birtar voru í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem samanburður sem þessi er gerður víðs vegar í heiminum.

Höfundar rannsóknarinnar könnuðu heilsufarsupplýsingar sem 245.404 fullorðnir einstaklingar í 60 löndum gáfu sjálfir og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hefur safnað. Í ljós kom að 3,2% þeirra sem upplýsingar veittu höfðu þjáðst af þunglyndi á tilteknu ári.

Þetta var lítið eitt lægra hlutfall en þeirra sem þjáðust af astma (3,3%), gigt (4,1%) og kverkabólgu (4,5%), en hærra en þeirra sem þjáðust af sykursýki (2%). En greining á lífsgæðavísi sýndi að þunglyndi olli mun meiri vanlíðan en hinir sjúkdómarnir.

Niðurstöðurnar eru birtar í breska læknaritinu The Lancet, og segir einn höfunda rannsóknarinnar að þær séu í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna, er sýnt hafi fram á mikil tengsl á milli þunglyndis og starfsorkuskerðingar.

Hvetja höfundar rannsóknarinnar lækna hvarvetna í heiminum til að vera betur vakandi gagnvart greiningu og meðferð á þunglyndi, og benda á að tiltölulega auðvelt sé að greina það og meðhöndla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert