Botnlanginn hefur hlutverk

Í margar kynslóðir hafa læknar fjarlægt botnlanga án þess að nokkuð hafi verið vitað um það hver tilgangur líffærisins sé og hann jafnan talinn gagnslaus. Hópur bandarískra vísindamanna við háskólann í Michigan hefur hins vegar komist að því að botnlanginn gerir gagn eftir allt saman og mun tilgangur hans vera að framleiða og geyma bakteríur sem hafa hlutverki að gegna í meltingarveginum. Norski fréttavefurinn Aftenposten segir frá þessu.

Þótt mannslíkaminn komist ágætlega af án botnlangans þá segja vísindamennirnir að hann hafi lykilhlutverki að gegna ef einhverjar þeirra óteljandi baktería sem vinna í meltingarveginum og maga hverfi eða skaðist af einhverjum ástæðum. Þegar sjúkdómar á borð við kóleru komi upp þá verki botnlanginn sem eins konar felustaður fyrir nauðsynlegar bakteríur sem fækkar hættulega mikið við sjúkdóminn.

Hins vegar segja vísindamennirnir að minni þörf sé fyrir botnlangann en áður og því er ekki að undra að menn hafi um árabil velt fyrir sér tilganginum með þessu líffæri, sem fæstir vita af fyrr en það bilar. Í nútíma-þjóðfélagi búa mennirnir nefnilega mun þéttar en áður, og „smita" því hverjir aðra af nauðsynlegum bakteríum. Þannig geta þær fjölgað sér aftur í þörmum vandræðalaust, þótt botnlanginn hafi verið fjarlægður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert