Um 25% allra fullorðinna einstaklinga í 63 löndum glíma við offituvandann

Hreyfing og hollt mataræði er sagt vera lykillinn að góðri …
Hreyfing og hollt mataræði er sagt vera lykillinn að góðri heilsu. mbl.is/G.Rúnar

Um fjórðungur allra karla og kvenna í 63 löndum eru of feitir að því er fram kemur í viðamikilli rannsókn á holdafari fólks. Frá þessu greindi virtasta rannsóknarstofnun Frakklands í dag.

Alls tóku yfir 168.000 manns á aldrinum 18 til 80 ára þátt í rannsókninni, en hún var gerð árið 2005. Fram kemur að 24% karla og 27% kvenna eigi við offituvandamál að stríða í læknisfræðilegum skilningi.

Þessu til viðbótar eru 40% karla og 30% kvenna skilgreind sem of þung að því er fram kemur í rannsókninni sem var birt í bandaríska læknariti bandarísku hjartasamtakanna í síðustu viku.

Vísindamaðurinn Beverly Balkau, sem fór fyrir rannsókninni, segir rannsóknina vera þá stærstu sinnar tegundar. Hún segir að rannsóknin gefi glögga mynd af stöðu mála um allan heim, því sömu aðferðum hafi verið beitt allsstaðar.

Balkau segir jafnframt að niðurstöður rannsóknarinnar sýni fram á að heimurinn standi frammi fyrir sönnum heimsfaraldri. „Á milli 50 til 66% íbúa heimsins eru annaðhvort of þungir eða eiga við offituvandamál að stríða,“ sagði hún.

Þá hefur hún hvatt stjórnvöld um allan heim að grípa til beinskeyttra aðgerða og hvetja fólk til að hreyfa sig og leggja sér hollt fæði til munns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka