Steingerð höfuðkúpa af risa nagdýri rannsökuð

Vísindamenn í Úrúgvæ haafa greint frá nýrri tegund af risanagdýri …
Vísindamenn í Úrúgvæ haafa greint frá nýrri tegund af risanagdýri sem fannst í Úrúgvæ. CARIN L. CAIN

Steingerð höfuðkúpa af stærsta nagdýri sem skráð hefur verið fannst í Úrúgvæ fyrir þrem árum.  Nú hefur rannsókn leitt í ljós að um er að ræða nýja tegund nagdýrs sem var álíka stórt og naut.

Sagt er frá því á fréttavef BBC að vísindamenn telja að jurtaætan, sem mun hafa verið þrír metrar á lengd, hafi búið í skógum og árósum fyrir 2-4 milljónum ára.

Spendýrinu, sem er talið hafa verið 15 sinnum þyngra en stærsta núlifandi nagdýrið, er lýst í grein í ritinu Journal Proceedings of the Royal Society B.

Fram kemur í greininni að dýrið hafi líklega lifað á sömu slóðum og sverðtenntir kettir og ránfuglar.

„Nagdýr eiga ekki auðvelt með að hlaupa.  Dýrið gæti hafa orðið svona stórt þar sem það þurfti að berjast við rándýr af þessu tagi," sagði Dr. Rudemar Ernesto Blanco, einn höfunda greinarinnar.

Fornleifafræðingar meta líkamsþyngd dýrsins með því að bera höfuðkúpuna saman við lifandi nagdýr í Suður-Ameríku.

Þyngd dýrsins er talin hafa verið nær 1000 kílóum og lengd um þrír metrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert