Hamingjan er arfgeng

Ánægð stúlka í Kalíningrad.
Ánægð stúlka í Kalíningrad. AP

Það eru forn sannindi að hamingjan fáist ekki fyrir peninga, en aftur á móti virðist sem hægt sé að erfa hana, að því er breskir og ástralskir vísindamenn greindu frá í dag.

Rannsókn á hátt í eitt þúsund pörum eineggja og tvíeggja tvíbura leiddi í ljós gen sem stjórna um helmingi þeirra persónueinkenna sem gera fólk hamingjusamt, en aðrir þættir sem leiða til hamingju ráðast af breytum á borð við ástarsambönd, heilsufar og starfsferil.

Tim Bates, vísindamaður við Edinborgarháskóla, er stjórnaði rannsókninni, segir niðurstöðurnar hafa komið talsvert á óvart.

Þátttakendur í rannsókninni voru sjálfboðaliðar á aldrinum 25-75 ára. Þeir voru spurðir spurninga um persónueinkenni sín, hversu áhyggjufullir þeir væru og hversu ánægðir þeir væru með líf sitt.

Eineggja tvíburar hafa samskonar gen, en tvíeggja tvíburar ekki, og því gátu vísindamennirnir borið kennsl á sameiginleg gen sem leiða til tiltekinna persónueinkenna er gera fólk móttækilegt fyrir hamingju.

Þeir sem eru félagslyndir, athafnasamir, í jafnvægi, vinnusamir og samviskusamir eru líklegri en aðrir til að vera hamingjusamir, segja vísindamennirnir í niðurstöðum sínum í vísindaritinu Psycological Science.

Niðurstöðurnar eru mikilvægur þáttur í leitinni að þekkingu á þunglyndi og hvað valdi því að sumir eru hamingjusamir en aðrir óhamingjusamir, sagði Bates.

Þeir sem hafa jákvæð, arfgeng persónueinkenni kunna ennfremur að búa að hamingjubirgðum sem þeir geta gripið til þegar gefur á bátinn, sagði Bates ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert