Trommuleikarar með svipað þol og íþróttamenn

Lars Ulrich, trommuleikari Metallica, er eflaust í hörku formi.
Lars Ulrich, trommuleikari Metallica, er eflaust í hörku formi. Reuters

Trommuleikarar í rokkhljómsveitum verða að vera í feikna góðu formi eigi þeir að endast á tónleikum. Fram kemur í nýrri rannsókn að þeir þurfi að hafa álíka gott þol og knattspyrnumaður sem leikur í ensku úrvalsdeildinni.

Fram kemur á fréttavef BBC að rannsóknir á Clem Burke, sem lemur húðir í hljómsveitinni Blondie, hafi leitt í ljós að 90 mínútna trommuleikur geti aukið hjartslátt Burke upp í 190 slög á mínútu.

Dr. Marcus Smith, sem stjórnar rannsókninni, segir að trommuleikarar verði að hafa mjög gott þol. Hann segir að eftir klukkutíma trommuleik á tónleikum geti trommuleikarar verið búnir að brenna á milli 400 og 600 kaloríum.

Smith, sem er mikill aðdáandi Blondie, bauð Clem Burke að taka þátt í rannsókninni sem stendur yfir næstu átta árin.

Vonir standa til að niðurstöðurnar hjálpi í baráttunni við offitu barna. T.d. verði búin til ný verkefni sem virki sem hvatning fyrir of þung börn sem hafi engan áhuga á íþróttum.

Rannsóknin leiddi í ljós að hjartað sló að meðaltali 140 til 150 slög á mínútu á meðan Burke lék á trommurnar. Hraðinn fór mest upp í 190 slög á mínútu sem er svipað mikið og hjá íþróttamönnum í fremstu röð.

Smith bendir á að á meðan bestu knattspyrnumennirnir spili um einn til tvo leiki á viku þá spili trommuleikarar oft kvöld eftir kvöld á tónleikum.  „Knattspyrnumenn geta alla jafna búist við að leika 40 til 50 leiki á ári. En á 12 mánaða tímabili lék Clem á 100 90 mínútna löngum tónleikum,“ segir Smith.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert