33 milljónir HIV-smitaðar

Dansarar komu fram þegar alnæmisráðstefnan var sett í Mexíkóborg.
Dansarar komu fram þegar alnæmisráðstefnan var sett í Mexíkóborg. Reuters

Um 20 þúsund vísindamenn, embættismenn og aðrir sérfræðingar eru nú saman komnir í Mexíkóborg á alþjóðlegri ráðstefnu um alnæmi. Búist er við Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, til Mexíkóborgar síðar í dag.

Fram kom við upphaf ráðstefnunnar í morgun, að 33 milljónir manna um allan heim séu smitaðir af HIV veirunni, sem veldur alnæmi. Þótt fjöldi HIV-smitaðra haldi áfram að aukast í nokkrum löndum, svo sem Rússlandi, Kína, Þýskalandi og Bretlandi, hefur þeim fækkað lítillega á heimsvísu.

Aldarfjórðungur er liðinn frá því alnæmi varð fyrst þekkt og síðan hafa um 25 milljónir manna látist af völdum sjúkdómsins. Þeir sem berjast fyrir réttindum HIV-smitaðra hvetja til þess að aðgengi að lyfjum verði aukið. Í Afríku, þar sem um 70% allra smitaðra búa, hefur lyfjaaðgengi aukist en þar skortir heilbrigðisstarfsmenn til að dreifa lyfjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert