Vísindamenn segjast skrefi nær hulinshjálmi

Vísindamenn í Bandaríkjunum segjast hafa komist skrefi nær því að þróa efni sem geti gert fólk og hluti ósýnilega. Hefur þeim í fyrsta sinn tekist að sveipa þrívíða hluti hulinshjálmi úr gerviefnum sem beina ljósinu framhjá sér. Fram til þessa hefur aðeins tekist að gera mjög þunna, tvívíða hluti ósýnilega.

Síðar í vikunni munu vísindamennirnir, undir forystu Xiang Zhang, við Kaliforníuháskóla í Berkeley, greina frá þessum árangri í vísindaritunum Nature og Science.

Hlutir sjást vegna þess að þeir rjúfa ljósið í kringum sig og endurvarpa því að hluta að auga þess sem sér þá. Hulinshjálmurinn er gerður úr svonefndum undirstöðuefnum, sem beina bylgjum, þ. á m. ljósbylgjum, framhjá hlutum, líkt og þegar vatn rennur yfir sléttan stein.

Þessi tækni er ólík svonefndri stealth-tækni, sem notuð er til að gera flugvélar torsýnilegar á ratsjá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert