Skilmálum Chrome breytt

Margir tölvunotendur höfðu beðið spenntir eftir nýja vafranum Chrome frá Google. Vafrann var hægt að nálgast í gær og þykir hann bæði hraður og einfaldur. Eitt kom þó fólki óþægilega á óvart, í notendaskilmálum varð fólk að afsala algerum höfundarrétti yfir öllum texta sem það skrifaði inni í vafranum. Eftir mikla gagnrýni hefur þetta nú verið lagfært.

Hægt var að hlaða niður vafranum Chrome frá Google í gær og þykir um byltingarkenndan vafra að ræða. Myndræn vinnsla gengur afar hratt fyrir sig og síður hlaðast inn með meiri hraða en áður hefur þekkst. Þá er naumhyggjuleg framsetningin frábrugðin því sem fólk á að venjast, til að mynda eru þar nánast engir hnappar. 

Eins og flestir vita þá er yfirleitt nauðsynlegt að samþykkja notendaskilmála áður en maður fer að nota hugbúnað og þar annað hvort hafnar maður eða samþykkir skilmála fyrirtækisins. Samþykki er nauðsynlegt vilji maður nota vöruna.

Fólk samþykkir gjarnan þessa skilmála án þess að hafa fyrir því að lesa þá en það gera þó sumir, sem betur fer. Glöggskyggnir notendur tóku eftir því að í skilmálum Chrome var að finna littla klásúlu þar sem fólk afsalaði sér algerum eignarrétti yfir öllum texta sem maður skrifaði inni í vafranum, hvort sem það væri spjallskilaboð, bloggfærsla eða bréf.

Þannig hljóðaði grein 11.1 nokkurn veginn: Þú heldur eignarréttinum yfir efni því sem þú lætur frá þér gegnum þjónustuna. Með því að birta, setja inn eða sýna efni gefur þú Google óafturkallanlegan, frían, eilífan rétt á heimsvísu á því að nota, breyta, þýða, dreifa og birta allt það efni sem þú lætur á netið í gegnum vafrann.

Þegar fólk gerði sér grein fyrir þessu varð uppi fótur og fit í netheimum.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem Google kemur með álíka skilmála því þeir voru einnig notaðir í Google Documents.  Sú þjónusta býður fólki upp á að skrifa og geyma skjöl á vefnum. Þar var þeim síðan breytt aðeins og talsmaður Google fullvissaði almenning um að skjölin þeirra yrðu ekki birt hist og hér í leyfisleysi.

Í samtali við Ars Technica segir Rebecca Ward, aðal vöruráðgjafi Goggle Chrome, að fyrirtækið reyni að nota sem mest sömu skilmálana fyrir allar vörur sínar til að halda hlutunum eins einföldum og hægt er fyrir neytendur.

,,Við viðurkennum að stundum eiga lagaatriðin ekki við allar vörur. Við erum að vinna að því núna að fjarlægja ákveðin atriði úr notendaskilmálum Chrome.” Breytingin mun vera afturvirk þannig að þeir sem voru búnir að samþykkja gömlu skilmálana sitja því ekki eftir í súpunni.

Það ber þó að hafa í huga að þar sem kóði Chrome er opinn getur hver sem er náð í hann og sett saman án þess að þurfa að samþykkja skilmálana. Þeir hefðu því aldrei getað fylgt skilmálunum eftir.

Þeir sem ná sér í nýja vafrann þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því að Google muni notfæra sér texta þeirra í leyfisleysi og banni í framtíðinni.

Þetta dæmi sýnir hins vegar glögglega að það getur verið skynsamlegra að samþykkja ekki hlutina í blindni heldur kynna sér þá á undan.

Notendaskilmálar Chrome.

Hér nær maður í nýja vafrann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert