Erfðaefni Íslendinga í þúsund ár

Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu greina í dag í vísindatímaritinu PLOS Genetics frá niðurstöðum sínum á rannsóknum á erfðaefni líkamsleifa frá landnámstíð. Rannsóknin er sú umfangsmesta sinnar tegundar sem framkvæmd hefur verið og sýnir m.a. þær breytingar sem orðið hafa á erfðaefni Íslendinga á þúsund árum, samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.

Hvatberi fenginn úr beinum 68 fornmanna

„Rannsóknin beindist að erfðaefni hvatbera, sem erfist frá móður til afkvæma, sem fengið var úr beinum 68 fornmanna, u.þ.b. 1000 ára gömlum. Niðurstöðurnar eru í takt við fyrri rannsóknir ÍE sem staðfest hafa frásögn Íslendingasagna. Þær rannsóknir hafa sýnt fram á að landið byggðist af körlum frá Norðurlöndum, víkingum, og konum sem rætur sínar áttu að rekja til Skotlands og Írlands, svæða sem oft urðu fyrir barðinu á ránsferðum víkinga.

Hraðar breytingar á erfðamengi Íslendinga

Þær nýju upplýsingar koma fram í greininni sem birtist í dag, að erfðamengi Íslendinga virðist hafa breyst hratt á þúsund árum. Þannig eru formæður Íslendinga, írsku og skosku landnámskonurnar, erfðafræðilega skyldari fólki í bæði Norðvestur- og Suðvestur-Evrópu en Íslendingum nútímans. Í stuttu máli er skýringin sú að erfðir Íslendinga hafa breyst við það að ákveðnir einstaklingar eignast fleiri börn en aðrir og jafnframt fleiri afkomendur, í þessu tilfelli á tímabili sem spannar um 35 kynslóðir.  Afleiðingin getur orðið sú, einkum í litlum hópum, að fjölbreytni erfðamengis upphaflega hópsins minnkar og breytist með tímanum," að því er segir í tilkynningu.

„Þessar niðurstöður eru mikilvægt framlag til rannsókna þar sem fornt erfðaefni er notað til rannsókna, ekki aðeins á einni þjóð, heldur á tegundinni allri og því hvernig maðurinn hefur breiðst út frá Afríku til allra heimshorna. Við vonum að rannsóknin muni hvetja aðra til að fylgja á eftir með stórum rannsóknum annars staðar í heiminum,” segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í fréttatilkynningu.

„Við erum ánægð og stolt af því að þær upplýsingar sem við höfum aflað á Íslandi, bæði á þessu sviði og við rannsóknir á erfðum sjúkdóma, geti gagnast fólki um allan heim.”


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert