Ruslpósturinn flæðir sem aldrei fyrr

Ruslpóstur getur gert mörgum lífið leitt.
Ruslpóstur getur gert mörgum lífið leitt. AP

Fram kemur í nýrri öryggisskýrslu bandaríska hugbúnaðarrisans Microsoft að 97% af öllum tölvupóstsendingum á netinu sé svokallaður ruslpóstur. Í flestum þeirra er verið að auglýsa lyf eða aðrar vörur. Oft fylgja hættuleg viðhengi þessum pósti sem geta skaðað og sýkt tölvur.

Í skýrslunni kemur einnig fram að hlutfall sýktra tölva í heiminum sé 8,6 á móti hverjum þúsund ósýktum tölvum. Þá segir að tölvuþrjótar herji í auknum mæli á Office-skjöl og PDF-skrár, sem nær allir tölvunotendur þekkja og nota nær daglega.

Talsmenn Microsoft segja hins vegar að fólk eigi ekki að hafa áhyggjur af því hversu mikið af óvelkomnum tölvupósti sé í umferð. Megnið af ruslpóstinum muni aldrei komast inn í pósthólfin.

Yfirmaður netöryggismála hjá Microsoft segir að aukið magn af ruslpósti tengist breyttum aðferðum tölvuþrjóta og skipulagðra glæpahópa. Áður hafi þeir reynt að nýta sér veika bletti í forritum en í dag sæki þeir hart að veikum hlekkjum, þ.e. hinum almenna tölvunotanda.

Betri netteningar, stjórnkerfi og öflugri tölvur geri þeim nú kleift að senda ruslpóst í milljarðatali. Þetta hafi ekki verið hægt fyrir um þremur til fjórum árum síðan.

Nánar er fjallað um þetta á tæknivef breska ríkisútvarpsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert