Áfengið er engin afsökun

„Ég var svo drukkinn og hélt þar af leiðandi að …
„Ég var svo drukkinn og hélt þar af leiðandi að hún væri eldri,“ er afsökun sem vísindamennirnir við Háskólann í Leicester taka ekki góða og gilda. Reuters

Fullorðnir karlmenn sem sofa hjá stúlkum undir lögaldri geta ekki lengur afsakað sig með því að þeir hafi verið drukknir þegar þeir hittu þær og þeir þ.a.l. haldið að þær væru eldri. Þetta segja vísindamenn við Háskólann í Leicester í Bretlandi.

AFP-fréttastofan greinir frá því að víða um heim séu skýringar karlmanna, sem sænga hjá ólögráða einstaklingum, teknar góðar og gildar geti þeir fært góð rök fyrir því að þeir hafi ekki áttað sig á því að bólfélaginn væri undir lögaldri.

Menn haldi því gjarnan fram að þeir hafi verið mjög drukknir sem hafi haft áhrif á dómgreind þeirra. Þá haldi sumir því einnig fram að stúlkan hafi verið mikið förðuð og því litið út fyrir að vera eldri.

Vincent Egan, sem fór fyrir rannsókninni, segir hins vegar að jafnvel þegar karlmenn eru mjög drukknir þá eigi þeir að geta gert sér grein fyrir aldri stúlknanna.

Vísindamennirnir báðu 240 manns, 120 konur og 120 karla, um að skoða 10 ljósmyndir af 17 ára gömlum stúlkum. Viðkomandi átti svo að segja til um aldur stúlknanna og greina frá því hvort þeim þætti viðkomandi stúlka aðlaðandi eður ei. Búið var að eiga við nokkrar af myndunum. T.d var búið að bæta við farða inn á myndina með stafrænum hætti. Þetta var gert til þess að láta sumar stúlknanna líta út fyrir að vera eldri eða jafnvel yngri. 

Allir karlmennirnir sem tóku þátt í könnuninni voru gagnkynhneigðir og voru þeir á aldrinum tvítugs til sjötugs. Helmingur þeirra hafði auk þess drukkið áfengi áður en þeir tóku prófið.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að áfengið hafði lítilsháttar áhrif á getu kvennanna til að sjá í gegnum stafrænu breytingarnar.

Allir karlmennirnir áttu hins vegar auðvelt með að átta sig á raunverulegum aldri stúlknanna. Það skipti engum toga hversu mikið af áfengi þeir höfðu drukkið áður en rannsóknin hófst.

Egan segir að rannsóknin gefi vísbendingar um það að áfengisdrykkja og andlitsfarði hafi engin áhrif á dómgreind karlmanna að þessu leyti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert