Verðandi feður fá samúðarbumbu

Karlar verða að passa hvað þeir borða þegar konan er …
Karlar verða að passa hvað þeir borða þegar konan er ólétt.

Verðandi feður þyngjast að meðaltali um 6,35 kíló á meðan meðgöngunni stendur, samkvæmt nýrri rannsókn. Um fimmtungur karlanna sem tóku þátt í rannsókninni kenndu því um að þeir fengju stærri matarskammta þegar konan þeirra væri ólétt og 41% þeirra sögðu að meira snarl væri að finna í húsinu á þessu tímabili.

Þá sýndi rannsóknin að um 25% karlanna borðuðu meira til að láta maka sínum líða betur með eigin þyngdaraukningu.  Feðrafélag í Bretlandi hefur í kjölfarið gefið út þau skilaboð að karlar þurfi að vera meðvitaðir um að óheilsusamlegur lífstíll þeirra geti haft áhirf á konurnar þeirra.

Meðal uppáhalds „meðgöngusnakks“ karla má nefna pizzur, súkkulaði, kartöfluflögur og síðast en ekki síst, bjór. Um fjórðungur þátttakenda kannaðist við að þurfa að kaupa „óléttuföt“ á sjálfan sig vegna vaxandi mittismáls í meðgöngunni.

42% aðspurðra para sögðust eyða meiri tíma í að fara á veitingastaði og öldurhús á meðgöngunni til þess að njóta sem best tímans sem þau eiga saman áður en barnið fæðist. Eftir fæðinguna er hinsvegar mun algengara að konur fari í átak til að grenna sig, því aðeins þriðjungur karla sagðist taka þátt í slíku þrátt fyrir að hafa bætt á sig.

Aðstandendur könnunarinnar segja ekki óeðlilegt þótt konur borði meira og langi í feitari mat á meðan meðgöngunni stendur. Það sé hinsvegar val karlanna að leita í óhollt snakk og hvað þá heldur bjórinn. Þannig sé ekki hægt að kenna konum um þótt karlar bæti á sig samúðarbumbu á meðgöngunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert