Apple segir hættuleg tæki vera einangruð tilvik

Apple iPhone.
Apple iPhone. Reuters

Nýlega hafa heyrst fréttir í fjölmiðlum af iPhone-farsímum og iPod-tónhlöðum sem hafa sprungið óvænt. Nú segir talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að bandaríska tæknifyrirtækið Apple hafi fullvissað ESB að um einangruð tilvik hafi verið að ræða.

Franskur unglingur hélt því fram að iPhone-síminn hans hefði sprungið framan í hann og þá kom upp tilfelli í Bretlandi þar sem iPod-spilari sprakk. ESB hafði samband við Apple í síðustu viku og óskaði eftir skýringum.

Talsmaður ESB segir að Apple hafi svarað spurningum sambandsins í morgun. Þeir segi að um einangruð tilvik sé að ræða, þetta sé ekki vandamál almennt. Hins vegar sé Apple að rannsaka þau mál sem hafi komið upp.

Framkvæmdastjórn ESB hefur beðið aðildarríkin 27 um að láta vita ef önnur slík tilfelli komi upp. 

Í júlí sagði bandaríska sjónvarpsstöðin KIRO í Seattle frá því að það væri áhyggjuefni hvað það hefði óvænt kviknað í fjölmörgum iPod spilurum, með þeim afleiðingum að fólk slasaðist auk þess sem eignatjón varð.

Fram kom að lögmenn Apple hefðu reynt að koma í veg fyrir að fréttamenn stöðvarinnar gætu komist yfir mörg hundruð blaðsíðna skjöl þar sem greint væri frá 15 tilfellum þar sem eldur hefði kviknað í iPod-spilurum.

Fram kom að ástæðuna mætti rekja til liþíum rafhlaðna sem ofhitnuðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert