Þrír deila Nóbelsverðlaunum í eðlisfræði

Verðlaunahafarnir þrír.
Verðlaunahafarnir þrír. Reuters

Þrír vísindamenn deila Nóbelsverðlaununum í eðlisfræði, sem að þessu sinni eru veitt fyrir rannsóknir sem leiddu til þróunar ljósleiðara og hálfleiðara.

Verðlaunahafarnir heita Charles Kao, sem er breskur ríkisborgari og býr í Hong Kong, og Willard Boyle ogGeorge Smith sem báðir eru bandarískir.

Í umsögn verðlaunanefndarinnar segir að vísindamennirnir þrír hafi búið til þau tæki, sem skópu upplýsingatæknibyltingu nútímans. Kao fékk verðlaun fyrir ljósleiðarann og segir nefndin, að ef allir ljósleiðarar í heiminum yrði lagðir saman væru þeir yfir 1 milljarður kílómetra.  Uppgötvun Kaos þýði, að hægt sé að senda texta, tónlist, myndir og myndskeið umhverfis jörðina á augabragði.

Boyle og Smith fá verðlaunin fyrir rannsóknir á hálfleiðurum, svonefndum CCD skynjurum, sem séu rafrænt auga stafrænna myndavéla. Segir verðlaunanefndin að þessi uppfinning hafi valdið byltingu í ljósmyndatækni því hægt var að nema ljós með rafrænum hætti í stað þess að nota ljósmyndafilmu.

Þessi tækni er einnig notuð í mörgum lækningatækjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert