Lancet afturkallar 12 ára gamla grein

Læknirinn umdeildi Andrew Wakefield.
Læknirinn umdeildi Andrew Wakefield. Reuters

Breska læknablaðið Lancet hefur formlega afturkallað grein, sem birtist í blaðinu árið 1998 um rannsókn sem virtist benda til þess að tengsl væru á milli einhverfu og bólusetningar gegn mislingum og tveimur öðrum barnasjúkdómum.

Ritstjórar Lancet tilkynntu þetta í yfirlýsingu á vef blaðsins í dag. 

Ákvörðun Lancet kemur í kjölfar þess að breska læknaráðið GMC hefur úrskurðað að læknirinn Andrew Wakefield, sem hélt því fram að samband væri á milli bólusetningar og einhverfu, hafi brotið siðareglur lækna, meðal annars með því að láta börn gangast undir sársaukafullar og þarflausar rannsóknir.

Læknaráðið komst að þeirri niðurstöðu að Wakefield hefði sýnt „kaldrifjað skeytingarleysi“ um þjáningar barna og „misnotað trúnaðarstöðu sína“ sem læknir. Gert er ráð fyrir því að ráðið úrskurði í sumar hvort svipta beri lækninn starfsleyfi.

Falsaðar niðurstöður

Wakefield hélt því fram í grein í  Lancet árið 1998 að samband væri á milli bólusetningar gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt og einhverfu. Þetta skaut foreldrum víða um heim skelk í bringu og verulega dró úr bólusetningunum með þeim afleiðingum að mislingar, sem áður höfðu vart sést, blossuðu upp að nýju og ollu dauða eða miklum skaða hjá mörgum börnum.

Seinna kom í ljós að greinin byggðist á fölsuðum rannsóknarniðurstöðum og aðrar rannsóknir benda til þess að ekkert samband sé á milli slíkrar bólusetningar og einhverfu. Ennfremur kom í ljós að Wakefield var á mála hjá lögmanni sem hugðist lögsækja framleiðendur bóluefnanna fyrir hönd nokkurra fjölskyldna vegna gruns um þau hefðu valdið einhverfu hjá börnum þeirra.

Tilkynning The Lancet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert