Felldu bloggarar forsetann?

Horst Koehler
Horst Koehler FABRIZIO BENSCH

Bloggarar virðast hafa átt stóran þátt í því að Horst Koehler, forseti Þýskalands, sagði af sér embætti í vikunni. Koehler sagði af sér vegna ummæla sem hann lét falla um nauðsyn hervalds til að verja viðskiptahagsmuni Þjóðverja, en í frétt AFP segir að hefðbundnir fjölmiðar brugðust ekki við ummælunum fyrr en bloggarar bentu á þau.

Koehler var á heimleið eftir að hafa heimsótt þýska hermann í Afganistan, þegar hann veitti þýskri útvarpsstöð viðtal. Í viðtalinu, sem fór í loftið 22 maí, ýjar Kohler að því að aðgerðir líkt og þær í Afganistan væru að hluta til af efnahagslegum toga.

„Það var Jonas Schaible [tvítugur bloggari] sem benti okkur á umdeild ummæli Koehlers, með því að skrifa um þau á bloggi sínu og tísta [e. „Twitt“] um þau,“  segir Kirsten Haake, blaðamaður hjá Die Zeit. Þakkar hún Schaible fyrir að hafa vakið athygli á málinu.

Samspil bloggara og fjölmiðla felldu forsetann

Sjálfur segist Schaible hins vegar ekki vilja eigna sér afsögn Koehlers. Á bloggi sínu skrifar hann að hann hafi ekki viljað veita viðtöl vegna málsins þar sem hann líti ekki á sig sem leiðtoga hreyfingar, heldur einfaldlega hluta af netverki.

Jan-Hinrik Schmidt, fjölmiðlafræðingur hjá háskólanum í Hamborg, segir að það hafi ekki verið netverjar einir og sér sem felldu forsetann, heldur samspil bloggara og hefðbundinna fjölmiðla. Segir hann atvikið sýna að bloggarar geti dregið fram í dagsljósið það sem hefur gleymst og leiðrétt mistök fjölmiðlamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert