Upplýsingar um Facebook-notendur birtar á Pirate Bay

Reuters

Búið er að safna saman og birta persónulegar upplýsingar um 100 milljónir Facebook-notendur á umfangsmestu skráaskiptavefsíðu heims, Pirate Bay. Öryggisráðgjafinn Ron Bowes bjó til forrit sem skannaði Facebook-síður og safnaði þeim upplýsingum sem notendur hafa ekki falið.

Á listanum er að finna lén að öllum notendum sem hægt er að leita að, nafni þeirra og auðkenni þeirra. Hægt er að sækja listann á Pirate Bay og fer hann nú sem eldur um sinu á netinu, segir á vef breska útvarpsins.

Bowes segist hafa gert þetta til að vekja athygli á öryggismálum á netinu. Forsvarsmenn Facebook segja hins vegar að þessar upplýsingar hafi nú þegar verið öllum aðgengilegar.

„Fólk sem notar Facebook á sínar upplýsingar og á rétt á því að deila aðeins því sem það vill, með þeim sem það vill, og þegar það vill,“ segir í yfirlýsingu frá Facebook.

„Í þessu tilviki þá hefur einn aðili safnað upplýsingum, sem fólk hefur samþykkt að séu öllum aðgengilegar og eru nú þegar til staðar í Google, Bing og öðrum leitarvélum, einnig á Facebook.“

Þá segir að engum mikilvægum persónuupplýsingum hafi verið lekið á netið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert