Sterkt handaband tengt langlífi

Sterkt handaband gefur til kynna langlífi samkvæmt rannsókninni.
Sterkt handaband gefur til kynna langlífi samkvæmt rannsókninni. Árni Sæberg

Hversu þétt þú tekur í höndina á fólki getur sagt til um hversu lengi þú lifir, að sögn vísindamanna við University College í London. Rannsókn var gerð þar sem skoðað var samhengi líkamlegrar getu og langlífis með því að bera jafnvægi fólks, grip þess og getu til að standa upp úr stól saman við líkurnar á ótímabærum dauða.

Þeir sem stóðu sig best voru líklegri til þess að ná háum aldri, samkvæmt niðurstöðunum sem birtar voru í fagtímaritinu British Medical Journal í gær. Vísindamennirnir vonast til að einföld próf sem þessi geti hjálpað læknum að greina sjúklinga sem eru í aukinni áhættu. Byggt var á yfir 30 eldri rannsóknum, þar sem þátttakendur skiptu þúsundum og voru flestir yfir 60 ára að aldri.

Niðurstöðurnar sýndu meðal annars að dánartíðni á tímabilinu sem rannsóknirnar voru gerðar var 67% hærri meðal þeirra sem höfðu hvað veikast grip í höndunum, en hjá þeim sem höfðu sterkasta gripið. Svipuð fylgni reyndist hjá þeim sem höfðu hægasta göngulagið, en þeir voru þrefalt líklegri til að deyja en þeir sem gengu hraðast. Dánartíðni þeirra sem stóðu hægast upp úr stól var tvöfalt hærri ein þeirra sem stóðu hraðast upp. Meira að segja hæfnin til að halda jafnvægi á öðrum fæti virtist tengd ótímabærum dauða.

Vísindamennirnir benda þó á að hrörnun sem fylgi sjúkdómum og slæmu heilsufari skýri þennan mun að mestu, nema þegar kemur að þéttu handtaki því þar var sama fylgni við dánartíðni jafnvel meðal fólks undir sextugu sem sýndi engin merki um slæma heilsu. Öldrunarlæknirinn Avan Aihie Sayer sem stýrði rannsókninni hvetur til þess að mælingar á gripi og handtaki fólks séu notaðar í meira mæli inni á sjúkrahúsum til að greina heilsu fólks. Sumar rannsóknir gefi til kynna að greina megi marktækan mun í styrkleika grips hjá mun yngra fólki sem bent geti til yfirvofandi heilsufarsvandamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert