Skjálftinn stytti sólarhringinn

Jörðin að nóttu séð úr Alþjóðlegu geimstöðinni.
Jörðin að nóttu séð úr Alþjóðlegu geimstöðinni. Reuters

Jarðskjálftinn mikli sem reið yfir Japan á föstudag var svo sterkur að hann jók snúningshraða jarðarinnar og stytti þannig sólarhringinn á henni um 1,8 míkrósekúndu. Þetta segir jarðeðlisfræðingurinn Richard Gross hjá geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA.

Frá þessu greinir á fréttavef CBS.

Gross komst að þessu með því að rannsaka gögn um hreyfingu jarðarinnar á flekaskilunum sem skjálftinn varð við og breyttu þyngdardreifingu plánetunar. Upphaflega taldi hann að sólarhringurinn hefði styst um 1,6 míkrósekúndu en nákvæmari útreikningar benda til þess að hann hafi styst 0,2 míkrósekúndum meira.

„Með því að breyta þyngdardreifingu jarðar ætti jarðskjálftinn að hafa valdið því að jörðin snúist ögn hraðar,“ segir Gross en mögulegt er að hann niðurstaða útreikninga hans breytist eftir því sem frekari upplýsingar berast.

Hver sólarhringur jarðar er 24 stundir eða 86.400 sekúndur. Á hverju ári skeikar samanlögð lengd allra sólarhringa ársins um sem nemur einni millisekúndu eða þúsund míkrósekúndum. Er þetta vegna árstíðabundinna breytinga á þyngdardreifingu plánetunnar, til dæmis veðurfarsfyrirbrigða.

Fyrirliggjandi gögn benda til þess að meginland Japans hafi færst um sem nemur 2,43 metrum í skjálftanum.

Skjálftinn í Japan er ekki sá fyrsti sem hefur áhrif á lengd sólarhringsins en jarðskjálftinn í Chile í fyrra, sem taldi 8,8 á Richer-kvarða, stytti hann um 1,26 míkrósekúndu og skjálftinn á Súmötru árið 2004, sem mældist 9,1 á Richter-kvarða, stytti hann um 8,6 míkrósekúndur.

Jarðarbúar þurfa þó ekki að hafa miklar áhyggjur af tímaskorti en ein míkrósekúnda er einn milljónasti úr sekúndu.
Frá borginni Shiogama í Japan
Frá borginni Shiogama í Japan KYODO
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert