Tímamótaferð Solar Impulse

Flugvélin Solar Impulse, sem gengur fyrir sólarorku, lenti í kvöld í Rabat, höfuðborg Marokkó. Ferðin markar tímamót því þetta er í fyrsta sinn sem vélin flýgur á milli heimsálfa, en hún lagði af stað frá Spáni og flaug yfir Gíbraltarsund áleiðis til Marokkó.

Svissneski ævintýramaðurinn Bertrand Piccard lenti vélinni kl. 23:30 að staðartíma (kl. 22:30 að íslenskum tíma) á Rabat Sale flugvellinum. Þar tóku fulltrúar Sólarorkustofnunar Marokkó (MASEN) á móti Piccard.

Þar verður vélin næstu fimm daga en þá mun hún fljúga til Ouarzazate í suðurhluta landsins. Þar verður vélin og Piccard viðstaddur þegar framkvæmdir hefjast við stærsta varmaorkuver heims sem gengur fyrir sólarorku.

Solar Impulse lagði af stað frá Barjas-flugvellinum í Madrid á Spáni kl. 5:22 að staðartíma (3:22 í nótt að íslenskum tíma).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert