Ætlar að senda par til Mars

Dennis Tito keypti sér ferð út í geim árið 2001.
Dennis Tito keypti sér ferð út í geim árið 2001.

Bandaríski milljarðarmæringurinn Dennis Tito ætlar að taka þátt í að fjármagna ferð til Mars. Hann hefur lengi haft mikinn áhuga á geimferðum og keypti sér ferð út í geim árið 2001 með Soyuz-geimfari og dvaldi átta daga í alþjóðlegu geimstöðinni.

Tito, sem er 72 ára gamall, hefur tilkynnt að hann ætli að leggja fjármagn í leiðangur til Mars og að ferðin verði farin í ársbyrjun 2018. Áætlað er að ferðin til Mars og til baka taki eitt og hálft ár.

Áætlunin gengur út á að senda par til Mars, en tilgangurinn er að sýna fram á að ferðir til stjörnunnar séu mögulegar. Yfirstíga þarf mörg vandamál áður en hægt er að senda geimfar af stað. Eitt vandamálið er geislun sem búast má við að geimfararnir verði fyrir. Sumir segja líka að hætt sé við að fólk deyi úr leiðindum ef það er lokað inni í litlu rými í eitt og hálft ár.

Þó Tito sé efnaður nær hann ekki einn og sér að fjármagna verkefnið, en hann ætlar að efna til söfnunar til að fjármagna kostnað við leiðangurinn.

BBC fjallar um þennan leiðangur og vísindamenn eru farnir að velta fyrir sér hvort líklegt sé að leiðangurinn heppnist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert