Ætla sér langt með stafrænar vörur

Ólafur Örn Nielsen og Steinar Ingi Farestveit, stofnendur Form5.
Ólafur Örn Nielsen og Steinar Ingi Farestveit, stofnendur Form5. Morgunblaðið/Ómar

Vinsældir snjallsíma og spjaldtölva hafa aukist gríðarlega á aðeins örfáum árum. Með þeim breytist upplifun notenda og fingur taka við af lyklaborðum og tölvumúsum. Tveir frumkvöðlar sögðu nýverið upp störfum sínum til þess að einbeita sér að þessum markaði. Þeir stofnuðu vefhönnunarverið Form5 og ætla sér langt með stafrænar vörur, jafnvel á alþjóðlegum markaði.

Í afar einföldu máli má kannski segja að Form5 starfi á sviði stafrænnar vöruhönnunar. Stofnendur fyrirtækisins eru hönnuðurinn Steinar Ingi Farestveit og forritarinn Ólafur Örn Nielsen. „Þegar við Steinar settumst niður á vormánuðum og ræddum þann möguleika að segja upp dagvinnunni til að stofna fyrirtæki þurftum við ekki langan umhugsunarfrest, mig minnir að það hafi verið ein vika sem leið frá því við töluðum fyrst saman og þar til við vorum búnir að segja upp störfum,“ segir Ólafur Örn en bætir við að þessi umræða hafi þó komið upp hjá þeim félögum áður.

Steinar Ingi tekur undir og segir að þeir hafi í gegnum tíðina átt góðar samræður um hönnun. „Hann [Ólafur] er hönnunarþenkjandi forritari, sem er ekki algilt í þeim bransa, og hefur sérstakan áhuga á notagildi í vefhönnun. Það vildi svo heppilega til að við vorum báðir í sömu hugleiðingum, enda mikið farið að sækja í okkur til að vinna sérverkefni. Við töldum þetta því góðan tíma til að hella okkur út í þetta.“

Augljós upplifun og fagurfræðilegt gildi

Báðir hafa þeir mikla reynslu af hönnun og forritun. Steinar Ingi lét af störfum hjá auglýsingastofunni ENNEMM og Ólafur Örn hjá WOW Air. Þeim þótti tími til kominn á meira frelsi, s.s. til að móta þau verkefni sem þeir taka þátt í, og vilja með eigin rekstri koma inn í vöruþróunina snemma í ferlinu og skila af sér fullhönnuðum og forrituðum gagnvirkum veflausnum.

Form5 er þegar komið með hóp viðskiptavina, þar á meðal erlenda en nafn fyrirtækisins er einmitt meðal annars hugsað út frá því að það sé hægt að nota á íslenskri og erlendri grundu. „Það skiptir orðið litlu hvar maður vinnur verkefnin. Við fundum í gegnum Skype og getum átt samskipti í gegnum verkefnastjórnunarkerfi. Því þarf maður í sjálfu sér ekki að hitta viðskiptavinina, þó það hjálpi að sjálfsögðu,“ segir Steinar Ingi.

Hvað veflausnirnar varðar þá segir Steinar Ingi að ólíkt mörgum vefhönnunarverum hugsi þeir um þær sem vörur. „Við teljum að vefhönnun eigi meira og meira skylt með vöruhönnun, bæði vegna þess að fólk hefur takmarkaðan tíma og þolinmæði og sökum þess að búnaður á borð við snjallsíma og spjaldtölvur hafa ekkert viðmót í sjálfu sér, bara stórt gler sem sér um að miðla vörunni á skjánum.“

Vegna þess er í auknum mæli sótt í grundvallarreglur vöruhönnunar og tekið mið af sömu takmörkunum. Besta lausnin sé þannig að hanna vöru sem vinni tiltekið hlutverk á auðveldan og gefandi máta. „Upplifunin þarf að vera augljós og notandinn verður að geta lært hratt á vöruna, en á sama tíma þarf hún að hafa fagurfræðilegt gildi til að skapa tilfinningatengsl við notandann,“ segir Steinar Ingi.

Fókusera á fáa hluti og gera þá vel

Þrátt fyrir að Form5 sé þegar tekið til starfa og vinna við verkefni hafin má segja að starfsemin hefjist formlega í byrjun júní. Þá lýkur uppsagnarfresti Steinars Inga og þeir geta báðir einbeitt sér að rekstri Form5. Spurðir að því hvort það sé ekki áhættusamt að hætta í góðum störfum og freista gæfunnar telja þeir svo ekki endilega vera. „Það er nóg af lausu atvinnuhúsnæði í boði á hagstæðu verði og auðvelt að koma sér upp ódýrri vinnuaðstöðu,“ segir Ólafur Örn en þeir leigðu sér skrifstofu og innréttuðu með notuðum húsgögnum og keyptu í IKEA. Þeir ætli sér því að fara skynsamlega af stað og stækka ekki fyrr en reksturinn beri slíkt. „Ef menn hafa brennandi ástríðu fyrir því sem þeir eru að gera þá er alltaf hægt að finna einhvern sem er tilbúinn að nýta sér þá þjónustu sem boðið er upp á.“

Hann bætir því við að margir sem hefji eigin rekstur geri þau mistök að ætla sér of mikið í upphafi og taki við of mörgum ólíkum verkefnum. „Það er miklu skynsamara að fókusera á fáa hluti og gera þá vel í stað þess að gera allt fyrir alla og vera ekki góður í neinu. Mestan kjark þarf til að segja nei.“

Vefsvæði Form5

Form5 á Facebook 

„App-deild“ innan fyrirtækis í San Francisco hafði áhuga á að …
„App-deild“ innan fyrirtækis í San Francisco hafði áhuga á að fá hannað kerfi sem sýnir helstu upplýsingar um stöðu þeirra appa sem eru í þróun (fyrir mismunandi stýrikerfi). Kerfið er bæði aðgengilegt í gegnum tölvu og svo í stanslausri birtingu á veggskjáum í húsnæði farsímadeildarinnar. Það sýnir m.a. lifandi upplýsingar um hvar og hvenær fólk virkjar öppin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert