Android komið í 80% markaðshlutdeild

Android snjallsímar eru með um 80% markaðshlutdeild. Á meðan er …
Android snjallsímar eru með um 80% markaðshlutdeild. Á meðan er hlutdeild Apple um 13% á snjallsímamarkaðinum. JUNG YEON-JE

Android stýrikerfi Google er nú komið með um 80% markaðshlutdeild á farsímamarkaði og hefur verið í mikilli sókn síðustu misseri. Á sama tíma dregst markaðshlutdeild Apple saman. Þrátt fyrir það var hagnaður Apple vegna farsíma meiri en Samsung, sem er stærsti farsímaframleiðandi heims sem nýtir Android kerfið. 

Í nýjum tölum sem komu fram í gær er hlutdeild Android kerfisins 79,3% á heimsvísu og hefur hækkað um 10,2 prósentustig frá síðasta ári. Á sama tíma hefur markaðshlutdeild Apple á þessum markaði dregist saman úr 16,6% niður í 13,2%. Þetta kemur fram í frétt The Wall Street Journal.

Þessa miklu sveiflu má skýra með aukinni sölu í þróunarlöndum þar sem Android símar eru vinsælli vegna lægra verðs. Meðalsöluverð Apple farsíma er um 710 Bandaríkjadalir meðan Android símar seljast að meðaltali fyrir 407 dali.

Þessi munur leiðir til þess að framlegð hvers síma er um 33% hjá Apple, en farsímahluti fyrirtækisins skilaði um 5,99 milljarða dala hagnaði á öðrum ársfjórðungi. Framlegð Samsung er aftur á móti aðeins 19% og var hagnaður farsímadeildarinnar 5,63 milljarðar dala á sama tíma. Greiningarfyrirtækið Canaccord Genuity segir að aðrir farsímaframleiðendur hafi á þessum tíma tapað á farsímaframleiðslu sinni.

Sérfræðingar eru þó hræddir um að hið háa verð á Apple símunum muni verða til vandræða á ört stækkandi farsímamarkaði í þróunarlöndunum. Þar seljast flestir snjallsímar fyrir um 390 til 450 dali og hið stóra stökk upp í meðalsöluverð Apple síma sé einfaldlega of mikið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert