Stúlkan sem ljóstrar upp leyndarmálinu

Skjáskot af Telegraph

Táningsstúlka sem féll ofan í holu fyrir meira en 12 þúsund árum í Mexíkó er „lykilvitni“ í rannsóknum á uppruna frumbyggja Ameríku.

Vísindamenn kalla stúlkuna Naia en beinagrind hennar fannst árið 2007 á Yucatan-skaga. Beinin eru þau elstu og heillegustu sem fundist hafa í Norður- og Suður-Ameríku.

Beinagrindin fannst í helli og þar fundust einnig tennur úr tígrisdýrum og björnum. Hellirinn er 41 metra undir sjávarmáli.

Naia féll í holu ofan við hellinn fyrir um 12-13 þúsund árum síðan á svæði sem kallað er Svarta holan. Þá var hellirinn ofan sjávarmáls og þurr.

Jöklarnir bráðnuðu og yfirborð sjávar hækkaði og hellirinn fylltist af vatni.

Talið er að Naia hafi verið 15 eða sextán ára. Svo virðist sem mjaðmagrind hennar hafi brotnað við fallið og að hún hafi látist nær samstundis, hefur Telegraph eftir Jim Chatters, sem er meðal þeirra sem koma að rannsókn beina hennar.

Höfuðkúpa hennar sýnir að hún hafði lítið og mjótt andlit, langt var milli augnanna, ennið var hátt og tennurnar nokkuð framstæðar. Útlit hennar var því nokkuð ólíkt því sem einkennir frumbyggja Ameríku í dag. Hins vegar sýnir erfðaefni hennar að hún er skyld frumbyggjum sem nú eru uppi. Talið er að hún sé afkomandi fólks sem kom frá Asíu yfir Berings-sundið, þess sama og frumbyggjar álfanna í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem slík tengsl eru sönnuð. 

Grein um rannsóknina hefur verið birt í Science.

Ítarleg grein um málið er á vef Telegraph.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert