Hjón virkja vegi til orkuframleiðslu

Svona sér listamaður fyrir sér gatnamót í Idaho verði tæknin …
Svona sér listamaður fyrir sér gatnamót í Idaho verði tæknin tekin upp Af vefsíðu Solar Roadways

Bandarísk hjón vinna um þessar mundir að því að þróa tækni sem gæti breytt vegum og bílastæðum í uppsprettur rafmagns. Framleiðsla frumgerðar af slíkri tækni var styrkt af bandarísku vegagerðinni (Federal Highway Administration) en nú hafa aðstandendur verkefnisins ráðist í sjálfstætt fjáröflunarátak á vefsíðunni indiegogo.com.

Hjónin sem um ræðir heita Julie og Scott Brusaw og eru bæði verkfræðimenntuð. Tæknin sem um ræðir kallast „Solar Roadways“ og notast við sólarorku og var fundin upp af þeim hjónum árið 2006. Um er að ræða sexhyrndar plötur sem hver um sig er fær um að framleiða rafmagn auk þess sem þær eru næmar fyrir þrýstingi og hægt er að forrita þær til að lýsa eftir þörfum.

Opnað var fyrir styrkveitingar til verkefnisins 21. apríl á þessu ári og stendur söfnunin til 20. júní. Síðan söfnun hófst hafa framlög til verkefnisins næstum því náð yfir tvöfalda þá upphæð sem lagt var upp með að safna, en það var ein milljón dollara. 

Ef til þess kæmi að tæknin yrði tekin í notkun á landsvísu mundi hún framleiða meira rafmagn en gervöll Bandaríkin nota í dag, samkvæmt síðu verkefnisins. Einnig er þar tekið fram að leitast yrði eftir bestu getu við að nota endurunnin hráefni við framleiðsluna og að fjöldi starfa yrði til í kringum tæknina.

Kynningarmyndband verkefnisins tekur einnig fram helstu upplýsingar um það og má vægast sagt segja að sá sem talar inn á það búi yfir mikilli innlifun. Hann tekur fram að það sé vegna þess að „Julie og Scott eru of hógvær og frábær til að öskra á ykkur á netinu“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert