Fleiri möguleikar í boði fyrir of feita

Einn af hverjum fjórum Bretum þjáist af offitu.
Einn af hverjum fjórum Bretum þjáist af offitu. AFP

Allt að 800 þúsund Bretar sem þjást af sykursýki 2 eiga möguleika á að fara í hjáveituaðgerð á kostnað hins opinbera samkvæmt nýrri reglugerð sem birt var í dag.

Í dag eiga þeir sem eru með líkamsmassastuðulinn BMI (e. Body mass index) 40 eða hærri eða 35 og hærri þjáist viðkomandi af fleiri samvirkandi sjúkdómum, svo sem sykursýki.

Samkvæmt reglugerðinni geta þeir sem eru með BMI milli 30 og 35 farið í slíka aðgerð þjáist þeir af sykursýki 2, sem er sjúkdómur sem tengist offitu. Miðað við upplýsingar um offitu Breta þá falla um 800 þúsund landsmenn undir þennan flokk. 

Mark Baker, framkvæmdastjóri Centre for Clinical Practice, segir að nýjar rannsóknir bendi til þess að fólk sem er of feitt og er nýlega greint með sykursýki 2 geti fengið góðan bata með slíkri aðgerð. Ríflega helmingur þeirra sem fari í hjáveituaðgerð nái að hafa betri stjórn á sykursýkinni eftir aðgerðina og um leið eru þeir ólíklegri til að þjást af sjúkdómum sem eru fylgifiskar sykursýki. Í sumum tilvikum getur fólk losnað við sykursýkina (það er áunna sykursýki) með slíkri aðgerð.

Ekki eru allir sammála þessu og segja skurðaðgerðir þar sem maginn er minnkaður eða hjáveituaðgerðir geti verið hættulegar. Ekki eigi að senda fólk í slíkar aðgerðir nema ekkert annað hefur skilað árangri.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert