Fékk virt stærðfræðiverðlaun fyrst kvenna

Íranski stærðfræðingurinn Maryam Mirzakhani varð í dag fyrst kvenna til …
Íranski stærðfræðingurinn Maryam Mirzakhani varð í dag fyrst kvenna til að fá hin virtu alþjóðlegu verðlaun Fields Medal á Alþjóðaráðstefnu stærðfræðinga. Ljósmynd/EhsanTabari

Íranski stærðfræðingurinn Maryam Mirzakhani varð í dag fyrst kvenna til að vinna til virtra, alþjóðlegra verðlauna, Fields Medal, sem veitt eru á fjögurra ára fresti á Alþjóðaráðstefnu stærðfræðinga. 

Mirzakhani fæddist í Tehran höfuðborg Írans árið 1977 og er því 37 ára gömul. Hún lauk doktorsgráðu í stærðfræði frá Harvard háskóla í Bandaríkjunum árið 2004 og er nú prófessor í stærðfræði við Stanford háskóla í Kaliforníu.

Hún er sérfræðingur í rúmfræði óvenjulegra forma og hefur sett fram nýstárlegar aðferðir við að reikna rúmmál á óreglulega löguðum breiðgerum flötum.

Í umsögn dómnefndar segir m.a. að Mirzakhani sé ótrúlega fjölhæf, beiti fyrir sig mikilli breidd af stærðfræðilegri tækni og djúpri þekkingu á gjörólíkri stærðfræðimenningu. Í henni sameinist sjaldgæf blanda af yfirburða tæknilegri getu, djörfum metnaði, framsýni og forvitni.

Fields Medal verðlaunin eru veitt fjórum framúrskarandi stærðfræðingum í senn, á fjögurra ára fresti. Mirzakhani hefur áður hlotið verðlaun fyrir framlag sitt til stærðfræðinnar, árið 2009 fékk hún s.k. Blumenthal verðlaun fyrir framfarir með rannsóknum og árið 2013 Satter verðlaun bandaríska stærðfræðifélagsins fyrir störf sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert