Svifbrettið hans Marty að veruleika

Marty McFly með svifbrettið góða árið 2015.
Marty McFly með svifbrettið góða árið 2015.

Allt frá árinu 1989 hefur fjölmarga dreymt um að eiga svifbretti. Þá kom kvikmyndin Back to the Future 2 út en í henni ferðast Marty McFly til ársins 2015 og notast við slíkt bretti á flótta undan fautum. Og viti menn, á næsta ári fara slík bretti jafnvel í sölu, fyrir 1,2 milljónir króna.

Hjónin Jill og Greg Henderson standa að baki Hendo svifbrettinu sem þau segja fyrsta alvöru svifbrettið sem virkar. Þau fóru þá leið að fjármagna verkefni sitt í gegnum Kickstarter og hafa þegar safnað rúmlega 216 þúsund Bandaríkjadölum af þeim 250 þúsund sem þau báðu um. Og enn eru eftir 53 dagar til að styrkja verkefnið.

Takmörk eru fyrir því enn hvað hægt er að svífa hátt frá jörðu á Hondo brettinu, en reiknað er með að svifbrettafólk geti farið um tvo sentímetra frá jörðu á svifi sínu. Þá er hægt að fara upp og niður brekkur á brettinu.

Fyrir 449 Bandaríkjadali fær styrkveitandi eftirlíkingu af svifbrettinu í fullri stærð en án þess möguleika að svífa. Hins vegar fyrir tíu þúsund Bandaríkjadali, eða 1,2 milljónir króna, fær styrkveitandi svifbrettið með öllum möguleikum þess.

Ætlunin er að afhenda fyrstu brettin 21. október 2015.

Sjá myndband hér að neðan um Hondo svifbrettið: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert