Eyða milljónum í að frysta egg sín

Sarah er 44 ára blaðamaður og dreymir um að eignast barn einhvern tíma. Susanah, 38 ára er útsendingarstjóri og vill endilega einhvern tíma eignast barn en ekki fyrr en unnusti hennar er reiðubúinn. Þær hafa báðar eytt tugum þúsunda Bandaríkjadala í að frysta egg sín til þess að eiga til góða þegar rétta stundin til barneigna rennur upp að þeirra mati. Þær eru ekkert einsdæmi því stórfyrirtæki eru jafnvel farin að bjóða starfsfólki upp á að greiða fyrir slíka meðferð.

Má þar nefna Facebook og Apple líkt og greint var frá á mbl.is nýverið.

Því yngri sem konur eru því frjórri eru þær en frjósemi kvenna minnkar hratt eftir 35 ára aldurinn. 

Sarah Elizabeth Richards var ein fyrst bandarískra kvenna til þess að nýja sér þessa tækni þegar byrjað var að bjóða upp á hana. Hún hefur látið frysta egg úr sér átta sinnum, fyrst í Kanada þar sem það var ódýrara þar og síðan í New York. Eggin lét hún fyrsta þegar hún var 36 og 37 ára gömul. Hún hefur látið sparifé sitt renna í þennan sparnað og eins hafa foreldrar hennar aðstoðað hana fjárhagslega. Alls hefur hún eytt 50 þúsund Bandaríkjadölum, 6,1 milljón króna, í að fyrsta 70 egg, segir hún í samtali við AFP fréttastofuna.

„Þetta er há fjárhæð að eyða í eitthvað eins og þetta en ég vissi alltaf að ég myndi vilja eignast börn,“ segir hún og bætir við að leit hennar að hinum eina rétta hafi ekki enn borið árangur.

Hún hefur nú skrifað bók um fyrstingu eggja og hvernig konu líður sem hefur látið frysta egg sín. Bókin nefnist Motherhood Rescheduled: the New Frontier of Egg Freezing and the Women Who Tried it.

Susanah segist hafa látið frysta egg úr sér eftir að hún hafði heyrt að slíkt væri hægt. Hún segist ekki vera reiðubúin til þess að eignast barn strax en sá tími muni koma síðar. Hún er ósátt við umræðu um að konur láti frysta egg sín til þess að láta ekki barneignir stöðva starfsframa sinn. Hún segir að þetta snúist miklu frekar um hversu erfitt sé að finna rétta manninn í borg eins og New York.

Kærasti hennar er 11 árum yngri en hún og hún segir að honum hafi létt þegar hún lét frysta eggin þegar hún var 36 og 37 ára þar sem hann er ekki reiðubúinn til þess að eignast barn strax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert