Búið að loka Pirate Bay

Peter Sunde, annar stofananda Pirate Bay
Peter Sunde, annar stofananda Pirate Bay AFP

Sænska lögreglan hefur lokað fyrir aðgang á skráarskiptasíðunni Pirate Bay en síðan er sú þekktasta af þeim síðum sem deila höfundarvörðu efni án heimildar.

Síðunni var lokað í vikunni eftir að lögreglan í Stokkhólmi gerði húsleit í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Þetta er í fyrsta skipti í mörg ár sem síðunni er lokað en húsleitin var gerð í kjölfar kvörtunar frá samtökum sem berjast gegn netglæpum, að því er segir í frétt á vef BBC frá því í gær.

Öllum að óvörum var það annar af stofnendum Pirate Bay, Peter Sunde, sem ekki kemur að starfsemi vefjarins lengur, sem fór fram á að síðunni yrði lokað.

Paul Pinter, lögreglumaður í Stokkhólmi, segir í samtali við BBC að rannsókn á starfsemi Pirate Bay hafi staðið yfir í nokkur ár. Hún hafi leitt til þess að lögreglan komst að því hvar vefþjónar síðunnar voru hýstir og var gerð húsleit á þeim stöðum og hald lagt á þá auk annars búnaðar sem tengist  Pirate Bay. 

Samkvæmt frétt DN.se í morgun liggur vefur Pirate Bay enn niðri eftir aðgerðir lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert