Uppgötvuðu plánetu líka jörðinni

Teikning af Kepler í ferð sinni um geiminn.
Teikning af Kepler í ferð sinni um geiminn. AFP

Ein af átta plánetum, sem nýlega uppgötvuðust í fjarlægu sólkerfi, líkist mest jörðinni af þeim plánetum sem fundist hafa hingað til.

Pláneturnar uppgötvuðust með hjálp Kepler-geimsjónauka NASA. Samkvæmt rannsóknum stjarnvísindamanna eru þrjár af plánetunum á lífvænlegu (e. habitable) svæði við sól sína og ein þeirra er klettótt, líkt og jörðin og aðeins nokkuð hlýrri.

Sagt var frá uppgötvuninni á fundi American Astronomical Society.

Kepler-sjónaukinn hefur nú fundið átta plánetur samanlagt sem sagðar eru lífvænlegar.

Vísindamenn segja að plánetan sem uppgötvaðist nýlega og er sögð líkjast jörðinni sé enn líkari heimkynnum okkar en önnur pláneta sem fannst einnig með aðstoð Kepler. 

Nýjasti „tvífari“ jarðarinnar er 12% stærri en plánetan okkar og er hitastig hennar nokkuð líkt því sem við eigum að venjast. Þó er líklega nokkuð hlýrra, segir Doug Caldwell, sem kom að rannsókn plánetunnar. „Hún er á sporbaug um svalari stjörnu, rauðan dverg, svo að himininn virðist rauðari en okkar.“

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert