Setja stefnuna á Evrópu

Teikning af brautarfari á braut um Evrópu, tungl Júpíters.
Teikning af brautarfari á braut um Evrópu, tungl Júpíters. Af Stjörnufræðivefnum

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA er byrjuð að undirbúa leiðangur til Evrópu, ístungls Júpíters, og hefur nú valið níu mælitæki fyrir könnunarfar sem hún hyggst senda þangað. Evrópa þykir líklegasti staðurinn í sólkerfinu utan jarðar til að geta fóstrað líf en talið er að mikið haf sé að finna þar.

Yfirborð Evrópu er þykk íshella. Rannsóknir með Galíleó-geimfarinu og Hubble-sjónaukanum hafa hins vegar gefið sterkar vísbendingar um að undir skorpunni leynist mikið haf. Á hafsbotninum ætti að vera berggrunnur og jafnvel eldvirkni vegna öflugra flóðkrafta frá Júpíter og öðrum tunglum í nágrenninu. Ef svo er er Evrópa líklegasti staðurinn í sólkerfinu til að geyma líf, fyrir utan Jörðina, að því er kemur fram í frétt á Stjörnufræðivefnum.

Fyrirhugað er að skjóta sólarorkuknúnu geimfari á loft í kringum árið 2025. Þremur til átta árum síðar (í kringum 2030) fer geimfarið á braut um Júpíter sem þýðir að það flýgur 45 sinnum framhjá Evrópu í 25 til 2.700 km hæð.

Í geimfarinu verða myndavélar og litrófsmælar sem eiga að kortleggja yfirborðið hárri upplausn og mæla efnasamsetningu þess. Ratsjá verður notuð til að skyggnast í gegnum ísinn, mæla þykkt íshellunnar og leita að hugsanlegum stöðuvötnum í henni, svipuð þeim sem finnast á Íslandi og Suðurskautslandinu.

Um borð verða ennfremur segulmælar sem notaðir verða til að mæla styrk og stefnu segulsviðsins en slíkar mælingar gefa upplýsingar um dýpt og seltu hafsins. „Hitamælar“ munu leita að merkjum um virka staði á yfirborðinu, t.d. þar sem vatn gæti hafa seytlað upp úr sprungum og önnur tæki leita að merkjum um vatn og litlar agnir í næfurþunnum lofthjúpi tunglsins.

Verði tilvist vatnsstróka og möguleg tengsl þeirra við haf undir yfirborðinu geta upplýsingarnar hjálpað mönnum að skilja efnasamsetningu Evrópu og hugsanlegs lífvænlegs umhverfis. Á sama tíma drægi úr þörfinni á að bora í gegnum ísinn.

Lesa má nánar um mælitækin níu í frétt á Stjörnufræðivefnum

Mynd sem könnunarfarið Galíleó tók af Evrópu. Þó að ískalt …
Mynd sem könnunarfarið Galíleó tók af Evrópu. Þó að ískalt sé á Evrópu er talið að undir skorpunni gæti verið að finna fljótandi vatn vegna flóðkrafta af völdum nálægðarinnar við gasrisann Júpíter eða vegna gosvirkni. NASA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert