Sólfarið aftur á leið í loftið

Solar Impulse 2 í tilraunaflugi yfir Havaí eftir viðgerðir sem …
Solar Impulse 2 í tilraunaflugi yfir Havaí eftir viðgerðir sem hafa staðið yfir frá því í júlí. AFP

Eftir nokkurra mánaða hlé er sólarknúna flugvélin Solar Impulse 2 á leiðinni í loftið á nýjan leik í apríl. Vélin hefur verið föst á Havaí frá því í júlí eftir að sólarrafhlöðurnar ofhitnuðu í miklum hita á leiðinni yfir Kyrrahafið. Ætlunin er að fljúga vélinni í kringum jörðina.

Viðgerðirnar hafa verið tímafrekar en nú lítur út fyrir að vélin komist aftur í loftið á næstu vikum. Talsmaður verkefnisins segir að fyrsti mögulegi brottfarardagur til að ná vesturströnd Bandaríkjanna sé 15. apríl. Solar Impulse 2 var um hálfnuð á leið sinni í kringum jörðina þegar bilunin varð.

Næsti hluti leiðarinnar á að taka um fjóra daga. Ekki er búið að ákveða hver lendingarstaðurinn verður en Los Angeles, San Francisco og Phoenix koma til greina.

Solar Impulse 2 lagði upp frá Abú Dabí í mars í fyrra og hefur ferðast nærri því 18.000 kílómetra. Tilgangur leiðangursins er að sýna fram á að möguleika sólarorku í flugsamgöngum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert